Misserisverkefni laganema vekur athygli hjá Samherja
Misserisverkefnin eru einn af hornsteinum grunnnámsins á Bifröst. Í þeim endurspeglast þau beinu tengsl við atvinnulífið sem námið hefur, náin vinna með kennurum og verkefnavinna með hóp fjölbreyttra einstaklinga. Eitt þeirra verkefna sem unnið var nú í vor, var rannsókn á valdheimildum Seðlabankans við gjaldeyriseftirlit og hvort hann hafi farið út fyrir þær við eftirlitið. Verkefnið hlaut hæstu einkunn verkefna á Félagsvísinda- og lagadeild og vakti sömuleiðis áhuga lögmanna í atvinnulífinu. Höfundar verkefnisins eru þau Ásta Karen Ágústsdóttir, Bergþór Bjarnason, Hafdís Jóhannsdóttir, Haukur Daði Guðmarsson og Kristófer Ari Te Maiharoa og Fróði Steingrímsson var leiðbeinandi þeirra. Við hittum þau Hafdísi og Kristófer og spurðum þau út í verkefnið og upplifun þeirra af misserisverkefnunum.
Verkefnið keypt af Samherja hf.
Þau sögðu ástæðuna að baki því að þau tóku þetta umfjöllunarefni fyrir aðallega hafa verið að málið hafi vakið athygli þeirra í fjölmiðlum. „Þetta er mál sem er búið að vera í fjölmiðlum í sjö ár, upphaflega ætluðum við að taka þann vinkil að skoða eftirvinnslu stjórnsýslunnar en það var þá að koma fram allskonar eftirvinnsla. Okkur óraði ekki fyrir því hvað væru mörg lögfræðileg álitamál þarna að baki.“ Segir Hafdís.
Niðurstöður verkefnisins voru þær að lagaumhverfið leyfir borgaranum ekki að njóta vafans. „Undirstaða réttarríkisins er sú að borgarinn fái alltaf að njóta vafans í samskiptum við ríkið en það er ekki í málum sem þessum. Við komumst að því að það vantaði áskilið samþykki ráðherra fyrir reglugerðum sem Seðlabankinn setur, samkvæmt lögum, og þar með voru refsiheimildir ekki gildar. Seðlabankanum var þannig gefið eftirlitshlutverk og því fylgdi götótt reglugerð og engin fordæmi“. Segir Hafdís.
Þau sögðu að málið sem hefur farið hæst í fjölmiðlum, á milli Samherja og Seðlabankans, litist oft af áliti fólks á Samherja, segir Hafdís. „Ef maður horfir á Samherja sem einn af borgurum ríkisins þá er ekki hægt að réttlæta gjörðir stjórnvaldsins“.
Þau höfðu samband af fyrra bragði við Samherja og komust í samband við lögfræðing fyrirtækisins. „Við fengum að senda henni verkefnið til yfirlestrar, bara til að tryggja að við færum rétt með staðreyndir. Hún gaf okkur feedback á verkefnið og hvatti okkur áfram í vinnunni. Það var mjög gaman að fá álit fagmanns í lögfræði og ákveðin viðurkenning að hún væri ánægð með vinnuna og væri að hvetja okkur áfram.“
Eftir að hópurinn hafði varið verkefnið og skilað því hafði fulltrúi Samherja aftur samband til að spyrjast fyrir um hvort verkefnið væri aðgengilegt. Það var svo af frumkvæði Samherja að þeir keyptu verkefnið og fá að birta úr því ef svo beri undir. „Okkur finnst mikill heiður og viðurkenning á vinnu okkar sem laganema að fyrirtæki eins og Samherji hefði áhuga á verkefninu okkar og væri tilbúið að greiða okkur fyrir afnot af því.“ Segir Hafdís.
„Misserisverkefnin setja allt sem við höfum lært í samhengi.“
Aðspurð út í misserisverkefnin sjálf segja Kristófer og Hafdís þau hafa sett námið hingað til í ákveðið samhengi. „Við fáum nasaþefinn af því sem við munum gera úti í atvinnulífinu, gaman að fá að taka frumkvæðið og ábyrgð á verkefninu, fá að sýna svolítið hvað við höfum lært þennan vetur.“ Segir Hafdís. Á haustönn er upplýsingatækni þar sem við lærum að setja upp formlega greinagerð, áfanginn hjá Sirrý þar sem maður lærir framsögu frá konu sem er hokin af reynslu og síðan allir lögfræðiáfangarnir, þetta kemur allt saman í missó“. Segir Kristófer.
Þá segja þau að verkefnið hafa verið mikla áskorun, sérstaklega í ljósi þess hve stuttan tíma nemendur fái til að vinna misserisverkefnin. „Missóáfanginn er vinnunnar viðri, ég er mjög hrifin af áfanganum eftir að þetta var búið. Þetta er erfitt og gaman á sama tíma, mikil áskorun en maður uppsker fyrir erfiðið, sælan eftir á er þess virði“ Segir Hafdís og bætir við að auk þess að græða þekkingu þá gefi námið á Bifröst henni svo margt fleira. „Maður stækkar líka tengslanetið og eignast vini fyrir lífstíð, svo eru Bifrestingar út um allt í atvinnulífinu og það er mjög gaman að vita af því að maður muni rekast á kennarana sína þegar maður ver út á vinnumarkaðinn eftir útskrift. Mér finnst við vera að fá betri tengingu við vinnumarkaðinn en ég bjóst við.“
Þá eru þau mjög jákvæð fyrir því að námið hjálpa þeim að ná ákveðinni sérstöðu þegar þau koma á vinnumarkaðinn. „Viðskiptalögfræði er óplægður akur í þessari starfsgrein, lögfræðingar eru alltaf að fást við samninga og verkútboð. Samningar er eitthvað sem við erum að fást við alla daga, námið og uppsetningin er mjög hagnýtt og í takt við tímann og breytt viðfangsefni í lögfræði“. Segir Hafdís að lokum.
Við óskum hópnum til hamingju með vel unnið verkefni og verðskuldaðan árangur.
Umsóknarfrestur í grunnnám í viðskiptalögfræði rennur út 15. júní, kynntu þér námið hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta