Mikil gleði á skóladeginum í Borgarbyggð
Skóladagurinn í Borgarbyggð var haldinn með miklum glæsibrag, laugardaginn 30. mars síðastliðinn. Þar komu allar skólastofnanir, frá leikskólum upp í háskóla, ásamt öðrum menntastofnunum saman og kynntu verkefni og starfsemi innan sinna veggja. Ýmis verkefni voru til sýnis og var einnig lífleg dagskrá á sviði.
Háskólinn á Bifröst tók þátt í deginum og var almenn starfsemi skólans kynnt. Þar að auki voru til sýnis viðskiptahugmyndir sem nemendur í elstu bekkjum grunnskóla Borgarbyggðar og Menntaskóla Borgarfjarðar höfðu unnið að í vinnustofum sem haldnar voru á Bifröst og síðan áfram í sínum skólum. Í lok dagsins voru veitt verðlaun fyrir bestu viðskiptahugmyndina. Verðlaunin hlutu þær Kristrún Óskarsdóttir, Andrea Jónsdóttir og Bryndís Hafliðadóttir fyrir hugmynd sína að vefsíðu þar sem ungu fólki gefst færi á að koma skoðunum sínum á framfæri við stjórnmálamenn sem og ræða þær við jafnaldra sína. Í kynningunni sem þær héldu um verkefnið töluðu þær meðal annars um könnun á stjórnmálaáhuga hjá ungu fólki í Grunnskólanum í Borgarnesi sem þær höfðu framkvæmt. Þar kom í ljós að áhuginn er mikill og telja þær að stjórnmálamenn vanmeti áhuga unga fólksins. Hér að ofan má sjá mynd af þeim með verðlaun sem Vilhjálmur Egilsson, rektor háskólans, afhenti þeim.
Þrjár aðrar spennandi hugmyndir voru til sýnis. Ein þeirra var hugmynd að nýju kennslukerfi sem hægt væri að nota í grunnskólum landsins sem kynnt af hóp úr Grunnskóla Borgarfjarðar. Þá kynnti sameiginlegur hópur úr Menntaskóla Borgarfjarðar og Grunnskólans í Borgarnesi hugmynd að nýju smáforriti sem les upp texta, á íslensku ef tekin er mynd af honum á síma. Að lokum var það hugmynd sem kom úr menntaskólanum sem var uppsetning á gagnagrunni og heimasíðu þar sem hægt væri að kynna sér fótboltafélög víða um heiminn.
Við hvetjum allt þetta unga og flotta fólk til dáða í framtíðinni og hlökkum til að fylgjast með þeim!
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta