Mikil ánægja nemenda með ferð til Coventry
Nýlega fóru átta nemendur við skólann út til Coventry í Englandi til að taka þátt í samstarfsverkefni á milli Háskólans á Bifröst og Coventry University. Nemendurnir voru alls 5 daga í ferðinni og unnu þau verkefni með nemendum úr háskólanum í Coventry. Verkefnið var að hanna smáforrit eða vefsíðu sem tengdist ferðaiðnaðinum. Íslensku nemendurnir áttu að sjá um hugmyndavinnu og markaðsgreiningu en þeir bresku voru tölvunarfræðinemendur sem áttu að sjá um tæknilega útfærslu.
Leifur Finnbogason var einn þeirra átta nemenda sem fóru tóku þátt í verkefninu fyrir hönd Bifrastar, hann segir að verkefnið hafi verið gott til að brjóta upp hið hefðbundna námsfyrirkomulag og að það hafi verið áskorun að vinna með nemendum frá öðru landi og úr öðrum námsgreinum.
„Við lærðum mikið miðað við hversu stuttur tími fór í þetta. Lærðum margt um hvernig nýsköpunar fyrirtæki virka og hvernig er að vinna með fólki sem talar ekki sama móðurmál og kemur úr öðrum námsgreinum. Í verkefnavinnunni þurftum við að vera fljót að vinna og gera margt á stuttum tíma og það var áhugavert að sjá hvernig er hægt að tvinna saman námið við raunveruleg verkefni.“
„Að kynnast erlendum háskóla og sjá annað háskólaumhverfi, ég hefði ekki viljað sleppa þessu, þetta var gott til að brjóta upp og góð tilbreyting frá hefðbundnu skólastarfi.“ Sagði Leifur, aðspurður um hvað hefði staðið upp úr að hans mati í ferðinni.
Thelma Dögg Harðardóttir, nemi í viðskiptafræði við skólann segir ferðina hafa mjög fjölbreytta upplifun sem hafi gefið nýja sýn á námið.
„Þetta var frábært tækifæri til að kynnast nýju háskólasamfélagi og kynnast því að koma hugmyndinni þinni á framfæri frá A til Ö. Þetta var klárlega tækifæri til að læra á nýsköpun, mjög krefjandi og bara drifið af verkefnavinnu. Ferðin var góð til að brjóta upp, eitthvað svona allt annað, ekkert í náminu sem er líkt þessu, alveg ný sýn.“
Aðspurð hvort ferðin myndist nýtast henni svaraði Thelma því játandi; „..sérstaklega tengslanetið, Íslendingarnir koma úr öllum áttum, tengdum öll mjög vel við hvort annað, öll að gera allskonar hluti. Svo líka tengslanet við Bretana, verður örugglega auðvelt ef maður fær hugmynd að vekja tengslanetið aftur.“
„Það sem stóð upp úr var hvað þetta var skemmtilegt og áhugavert, allskonar nýtt á hverjum degi. Við vorum öll að draga eitthvað persónulegt úr þessu, sumir að sjá erlenda háskóla í fyrsta skipti, pínu menningarsjokk og eitthvað sem opnar augun.“ Sagði Thelma að lokum.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta