Metaðsókn í meistaranám við Háskólann á Bifröst 27. maí 2020

Metaðsókn í meistaranám við Háskólann á Bifröst

Horfur eru á því að á árinu 2020 hefji hátt í 200 manns meistaranám við Háskóann á Bifröst.   Í byrjun árs hófu 32 nemendur meistaranám við skólann og á sumarönn bættust 14 nemendur í hópinn.  Miðað við fjölda umsókna má reikna með að 130 – 150 nýir nemendur komi inn á haustönn. 

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá áhuga fólks á náminu okkar. Sumarskólinn hefur slegið í gegn og umsóknir í meistaranám hafa aldrei verið fleiri. Nýnemum hefur fjölgað undanfarin ár svo það kemur okkur ekki á óvart að þróunin haldi áfram en ástandið í samfélaginu hefur væntanlega haft áhrif á  hversu mikil aukningin er að þessu sinni,“ segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst. „Fjölgun umsókna endurspeglar áhuga fólks á því námsframboði sem við höfum uppá að bjóða og sömuleiðis kennslufyrirkomulagi skólans en allt meistaranám er kennt í fjarnámi þannig að við mætum þörfum einstaklinga og þeir geta lært þegar og þar sem þeim hentar.“

Enn eru þrjár vikur eftir af umsóknarfresti fyrir grunnnám við Bifröst og hafa fleiri sótt um nám í ár en á sama tíma í fyrra þannig að það stefnir einnig í metaðsókn í grunnnám við skólann á komandi skólaári.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta