Menntun lykillinn að lífskjörum framtíðarinnar 18. janúar 2016

Menntun lykillinn að lífskjörum framtíðarinnar

Ágúst Einarsson er fyrsti prófessorinn við Háskólann á Bifröst til að hljóta nafnbótina prófessor emeritus. Ágúst hefur kennt í 25 ár, samhliða því að sinna rannsóknum og ritstörfum, og segir það vera forréttindi í sínu starfi að geta haft jákvæð áhrif á einstaklinga.

Ágúst tók við starfi rektors við Háskólann á  Bifröst árið 2007 og starfaði sem slíkur til ársins 2010 en hélt þá áfram að kenna við skólann líkt og hann hafði gert meðfram rektorsstörfum.

„Starfið á Bifröst hefur verið ákaflega gefandi og gott með góðum nemendum og starfsfólki en nú er ég sestur í helgan stein eða orðinn prófessor emeritus eins og það er kallað þegar starfandi prófessorar hætta vegna aldurs. Ég er sá fyrsti sem þetta á við við Háskólann á Bifröst og er stoltur af því að skólinn sé kominn á það stig að eiga slíkan prófessor enda sýnir það ákveðinn stöðugleika í skólastarfinu,“ segir Ágúst.

Ágúst segir sérstöðu skólans liggja í því að vera félagsvísindaskóli á afmörkuðu sviði sem sé nauðsynlegur hluti af íslenskri háskólaflóru og því sé ekkert því til fyrirstöðu að skólinn starfi áfram eins og hann hafi gert hingað til.

Hluti af samfélaginu

„Það er oft sagt að menntun sé lykillin að lífskjörum framtíðarinnar og það hefur aldrei verið sannara en núna enda samkeppnin orðin svo mikil og mörg störf að hverfa vegna sjálfvirkni. Sjálfur ákvað ég sem ungur maður að mennta mig vel og það er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að ljúka háskólanámi. Að námi loknu vann ég þó nokkuð mörg ár í sjávarútvegi, var framkvæmdastjóri í fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtæki í Reykjavík, og tók virkan þátt í störfum innan atvinnulífsins eins og það heitir. Einnig var ég atvinnumaður í stjórnmálum um skeið og sat á Alþingi en breytti svo algjörlega um stefnu en það hafði alltaf blundað í mér að fást við kennslu og rannsóknir. Nú er ég búin að kenna í 25 ár og hef verið afskaplega ánægður með það val,“ segir Ágúst.

Ágúst segir ólíka starfsreynslu hafa reynst sér vel við kennsluna, bæði að kunna á rekstur fyrirtækja og að hafa tekið þátt bæði í félagsstarfi innan atvinnulífsins svo og stjórnmálum. Þannig hafi hann í kennslunni getað tekið dæmi úr raunveruleikanum og spjallað við það um nemendur sem þeir hafi kunnað vel að meta. Það sé nauðsynlegt að háskólaprófessorar loki sig ekki algjörlega af innan fræðanna enda sé það að vera háskólakennari að vera hluti af samfélaginu.

Íslandsmet í kennslu

Samtals hefur Ágúst kennt nærri 10.000 nemendum í gegngum tíðina og rifjar upp þegar hann kenndi eitt sinn 700 manns í stærsta salnum í Háskólabíó sem var á þeim tíma Íslandsmet. Það segir hann hafa verið upplifun og vel hafi tekist til þó hann mæli ekki endilega með slíku.

„Mér hefur gengið vel í kennslu og er þakklátur fyrir það. Allt kennslustarf felur í sér að menn geta haft jákvæð áhrif á einstaklinga, en slík störf eru sjaldgæf, og mér finnst það vera forréttindi að geta lagt margt gott til í þeim efnum. Kennslan hefur því gefið mér mikið og glatt mig einna mest við hana að skynja að maður geti hjálpað fólki við að komast til nokkurs þroska,“ segir Ágúst og bætir við að í kennslunni verði menn að leggja sig alla fram því annars fari nemendum að leiðast og kennarinn nái ekki árangri rétt eins og leikari sem ekki nær athygli áhorfanda.

Ritstörf hafa alla tíð verið órjúfanlegur þáttur af kennslustörfum Ágústs sem hefur skrifað hátt á þriðja tug kennslu- og fræðibóka og segir hann ritstörfin vera meðal sinna áhugamála.

„Þó ég geti alveg slappað ef og lesi t.d. mikið þá er það mitt eðli að vera alltaf að gera eitthvað. Ég vinn mikið og hef alltaf gert og þannig nær maður árangri í lífinu,“ segir Ágúst að lokum.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta