Menntun í öryggi og ábyrgð
Háskólinn á Bifröst er með BA nám í almannavörnum og öryggisfræðum í undirbúningi og mun kennsla í þessari nýju námslínu hefjast á næsta skólaári, að sögn Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, deildarforseta og prófessors við félagsvísindadeild.
Nýja námslínan hefur verið í undirbúningi undanfarna mánuði í samstarfi við m.a. Almannavarnir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Brunamálaskólann og Landsbjörgu, en eins og Ólína hefur bent á í fjölmiðlum leiddi nýleg skýrsla Almannavarna-og öryggisráðs (mars 2021) í ljós verulega þörf á slíku námi hér á landi.
BA nám í almannavörnum og öryggisfræðum er einkum ætlað þeim sem hafa áhuga á löggæslu, eldvörnum, öryggismálum eða öðrum störfum á vettvangi forvarna- og viðbragðsaðila.
Þá undirbyggir námið einnig meistaranám í áfallastjórnun, sem hefur verið í boði við Háskólann á Bifröst undanfarin nokkur ár í samstarfi við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landsbjörgu, Rauða krossinn á Íslandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Á meistarastigi lýtur námið einkum að forvörnum og viðbúnaði, viðbrögðum, lærdómi og endurreisn vegna áfalla.
Ólína bendir jafnframt á, að með sérhæfðu námi í öryggi og ábyrgð sé verið að koma til móts við kröfu almennings um örugga forystu þegar um viðbrögð er að ræða við áföllum, forvörnum gegn þeim eða úrvinnslu vegna langtímaáhrifa.
Síðast en ekki síst fer nám í öryggi, almannaheill og áfallastjórnun afar vel saman við meginmarkmið Háskólans á Bifröst að mennta fólk til ábyrgrar samfélagsþátttöku og framþróun samfélagsins á forsendum mannúðar og sjálfbærni.
Viðtal við ÓKÞ í Mannlega þættinum (RÚV) 18. sept. (11:09)
Grein ÓKÞ í Mbl. 09. sept. sl.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta