Menningarstjórnun og mannaldarsúpa 21. mars 2023

Menningarstjórnun og mannaldarsúpa

Hvert er hlutverk menningar og skapandi greina í samtímanum? Er umræðan um mannöldina komin í einn graut eða eygjum við lausnir? 

Fjöldi viðburða, listsýninga og samkoma eru haldnar á menningarstofnunum sem vekja eiga athygli á loftslagsvá, hnattrænni hlýnun, súrnun sjávar og vistkerfum í hættu. En hvert er raunverulegt hlutverk lista og menningarstofnana varðandi aðsteðjandi vanda?

Menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst heldur í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur áhugaverða málstofu um hlutverk menningar og skapandi greina í samtímanum. Spurt er hvort menningarstofnanir beri ábyrgð á því hvernig mannkynið fer með Jörðina? Eða er meint umhverfisvitund fyrst og fremst gluggaskraut til þess létta á mannaldarmóralnum? Getur menningarstarfsemi lagt eitthvað til í umhverfis- og loftslagsmálum?

Til máls taka Bergsveinn Þórsson, safnafræðingur og dósent við Háskólann á Bifröst, en í erindi sínu sem nefnist Mannaldarsúpa: um efniskennd og birtingarmyndir loftslagsvár á söfnum mun Bergsveinn segja frá doktorsverkefni sínu. Þá mun Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, ræða um hlutverk menningarstofnana á viðsjárverðum tímum.

Málstofan er öllum opin, en nauðsynlegt er að skrá sig. Málstofan fer fram eins og áður segir hjá Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, kl. 15:00 til 16:30.

Hægt verður að nálgast upptökur af málstofunni hér á vef Háskólans á Bifröst og á FB síðu háskólans.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta