Menningarauðlind ferðaþjónustunnar
8. júlí 2025

Menningarauðlind ferðaþjónustunnar

Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) stóð að ráðstefnunni Menningarauðlind ferðaþjónustunnar, um menningarferðaþjónustu og nýja ferðamálastefnu til 2030 þann 14. maí í Hofi, Akureyri. Í lok árs 2024 hlaut verkefnið styrk úr Hvata, sjóði menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) en einnig komu að ráðstefnunni fjöldi aðila úr menningargeiranum og ferðaþjónustunni. Markmiðið með ráðstefnunni var að skoða samspil og hlutverk menningar í ferðaþjónustu. Enn fremur var henni ætlað að skoða hvernig efla megi gagnasöfn og rannsóknavirkni sem stuðlað getur að þróun og framförum á sviði menningarferðaþjónustu. Á ráðstefnunni fengu gestir að heyra fimm dæmisögur um vel heppnaða menningarferðaþjónustu um allt land og fjögur fræðileg erindi um rannsóknir á þessu sviði. Eftir hádegi tóku gestir þátt í hópavinnu sem nýtist í þróun rannsóknastefnu RSG á sviði menningarferðaþjónustu. Þemun voru samstarf og klasahugsun, markaðs- og kynningarmál, vöruþróun og fjárfestingar, gagnasöfnun og rannsóknaráætlun. Niðurstöður voru kynntar í pallborði. Ráðstefnustjóri var Sigríður Örvarsdóttir safnastjóri Listasafnsins á Akureyri.

Hér má nálgast upptökur af erindunum sem flutt voru á ráðstefnunni.