Meistaranemar í lögfræði við Háskólann á Bifröst slá í gegn á Miami 1. júní 2016

Meistaranemar í lögfræði við Háskólann á Bifröst slá í gegn á Miami

Háskólinn á Bifröst hefur tekið þátt í verkefninu LawWithoutWalls frá árinu 2013. Verkefnið, sem er alþjóðlegt, tengir saman starfandi lögmenn sem og aðra fagmenn, laganema og áhættufjárfesta víða um heim. Tilgangurinn með verkefninu er að nemendur noti þekkingu sína á lögfræði, í bland við reynslu af öðrum sviðum, til að skapa lausnir sem auka réttaröryggi almennings eða auðvelda lögfræðingum að leysa úr verkefnum.
 
Markmiðið er að nemendur vinni að hugmyndum sem fela í sér nýstárlegar lausnir á lögfræðilegum álitaefnum. Hugmyndafræðin á bakvið verkefnið er að hvetja og stuðla að nýsköpun á sviði lögfræðinnar sem hefur oft þótt fremur íhaldsamt svið. Með þessu er verið að skapa framtíðina í dag!
 
Krefjandi og skemmtilegt verkefni
Meistaranemarnir Andri Björgvin Arnþórsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir tóku þátt í LawWithoutWalls verkefninu fyrir hönd lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst í ár en nemendur kynntu niðurstöður verkefna sinna í Miami nýverið.
 
Eftir nokkuð ítarlegt viðtal í gegnum Skype við stjórnendur LawWithoutWalls, komust Andri og Hafdís bæði að í verkefninu en viðtalið byggist á að reynt er að lesa sem mest í persónuleika viðkomandi. Þátttakendum er síðan skipt í lið eftir því hvar styrkleiki þeirra liggur t.a.m. hvort viðkomandi sé leiðandi, talnaglöggur eða með góða samskiptafærni. Í kjölfarið héldu þau á upphafsfund í Madríd þar sem allur hópurinn var hristur saman og hóparnir, sem störfuðu síðan saman að viðskiptahugmynd næstu þrjá mánuðina, kynntust.
 
„Í kjölfarið hófst vinna út frá þeim viðfangsefnum sem hverjum hóp var úthlutað en í hverjum hópi eru tveir til þrír nemendur og fjórir til fimm leiðbeinendur. Í mínum hóp var fólk frá Ísrael og S-Afríku og reyndi strax á þátttakendur að vinna með mismunandi meningarhópum sem var skemmtilegt og krefjandi,“ segir Hafdís.
 
Hver hópur fundaði síðan tvisvar í viku á Skype og unnu þannig í sameiningu að viðskiptaáætlun. Þemað sem hópi Hafdísar var úthlutað var;hvernig má fjölga og viðhalda fólki sem er talið í minnihlutahópum í leiðtogastöður í lögfræði víða um heim. En hópi Andra var úthlutað þemanu;hvernig geta lögmenn nýtt sér tæknina til að hjálpa milljónum manna að lifa lengra, heilbrigðara og hamingjusamara lífi.
 
„Það kom á óvart hversu langt öll tækni er komin í lögmennsku miðað við hér, sérstaklega í Bandaríkjunum, og hugmyndir manns þurftu því að vera mjög frumlegar,“ segir Andri.
 
Viðskiptalögfræðin veitir forskot
Andri og Hafdís eru Bifrastarpar en þau kynntust á Bifröst haustið 2012. Þá hafði Andri lokið frumgreinanámi og var að hefja B.S. nám í viðskiptalögfræði en Hafdís að hefja frumgreinanám. Hún hóf síðan nám í viðskiptalögfræði haustið 2013. Þau segja viðskiptafræðiþekkinguna úr B.S. náminu hafa veitt þeim mikið forskot í verkefninu.
 
„Við höfum þennan viðskiptagrunn og fundum að það gaf okkur forskot t.d. að kunna að gera viðskiptaáætlanir. Einnig er eftirspurn eftir lögfræðingum með viðskiptavit úti á atvinnumarkaðinum,“ segir Andri.
 
Andri og Hafdís hafa bæði verið virk í félagslífi nemenda og segja það ekki síður mikilvægt en að sinna náminu vel. Einnig eiga þau tæplega tveggja ára dóttur og una hag sínum afar vel á Bifröst. Andri stefnir á útskrift næstu jól en Hafdís árið þar á eftir og hafa þá hug á að hefja störf á lögfræðistofu eða vera sjálfstætt starfandi.
 
Þau segja verkefnið hafa verið skemmtilegt og með því hafi þau einnig komið sér upp dýrmætu tengslaneti um allan heim. Þá geta þau tekið þátt í verkefninu í framtíðinni sem leiðbeindur sem þau segja stóran kost við verkefnið.
 
„Við mælum hiklaust með að fólk sæki um því þessi reynsla er í raun ómetanleg,“ segir Hafdís.
 
LawWithoutWalls verkefnið hófst við lagadeild Miami háskóla en meðal háskóla sem taka þátt eru t.a.m. lagadeildir Harvard, Stanford og University College London. Markmið þess er að bregðast við breyttri stöðu lögfræðinga á atvinnumarkaði og umbylta þekktum aðferðum við lögfræðikennslu.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta