Máttur kvenna með nýju sniði
Löng hefð er fyrir metnaðarfullu framboði símenntunar hjá Háskólanum á Bifröst. Magnús Smári Snorrason er forstöðumaður símenntunar hjá háskólanum. „Eins og með annað nám hér á Bifröst er rík áhersla lögð á tengsl við atvinnulífið og úrval skemmri og styttri námsleiða sem efla eiga fólk í starfi og veita aukna sérhæfingu“.
Meðal námsleiða sem símenntun Háskólans á Bifröst býður upp á er Máttur kvenna en það er 11 vikna rekstrarnám fyrir konur sem vilja öðlast þekkingu og færni í rekstri fyrirtækja Máttur kvenna fagnaði 10 ára afmæli á síðasta ári og er elsta námslína símenntunar. Nýtt námskeið hefst með vinnuhelgi þann 6. febrúar nk. og nú með aðeins öðru sniði. „Nýnæmið felst meðal annars í því að meiri áhersla verði lögð á hagnýtingu námsins, þá verður einnig lögð meiri áhersla á framsækni og tjáningu og fræðslu um nýsköpun og frumkvöðla. Uppbyggingu námsins hefur einnig verið breytt lítillega og nýjum fögum eins og Stofnun og rekstrarform fyrirtækja bætt við“.
Meðal nýrra kennara í Mætti kvenna er Anna Elísabet Ólafsdóttir aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst sem mun vera með innlegg um nýsköpun og frumkvöðla. Þá er einnig nýr verkefnastjóri komin til starfa á símenntunarsviði skólans en það er Kristín Þórdís Þorgilsdóttir nýútskrifaður viðskiptafræðingur frá Bifröst.
Kennslan fer fram með svipuðum hætti og fjarnámskennsla fyrir almenna háskólanemendur á Bifröst. „Námskeiðið hefst með vinnulotu á Bifröst þar sem m.a. fer fram ítarleg kynning á náminu og nemendur læra að nota þau tæki sem beitt er við kennsluna. Gist er á Hótel Bifröst og þess er gætt samhliða kennslunni sé nemendum gefið færi á að kynnast innbyrðis og mynda tengslanet. Hefð er fyrir því að hópurinn snæði saman kvöldverð“.
Á milli vinnulota í háskólaþorpinu geta nemendur stundað námið á þeim hraða og þeim tímum sem þeim hentar. Fyrirlestrar eru aðgengilegir á upptökum sem sóttar eru yfir netið. „Öll verkefnavinna fer sömuleiðis fram á netinu og getur námið t.d. kallað á að tveir eða fleiri nemendur vinni saman að verkefnum yfir netið. Ein námsgrein er tekin fyrir í einu og henni lokið áður en hafist er handa við næsta viðfangsefni, athyglin er því öll á einu viðfangsefni í senn“ útskýrir Magnús. „Náminu lýkur svo með því að hópurinn kemur saman á ný á Bifröst, farið er yfir það sem nemendur hafa lært og við gerum okkur glaðan dag með ljúffengum veitingum og útskrift“.
Magnús segir ávinninginn af námskeiðinu Máttur kvenna ekki fara á milli mála en hann felist bæði í beinharðri faglegri þekkingu sem nýst getur strax í starfi en í ekki síður í auknu sjálfstrausti og öflugra tengslaneti. „Nemendur láta almennt mjög vel af náminu og hafa iðulega á orði að þeir sjái um leið árangurinn í störfum sínum. Fyrir marga er það líka mikils virði að fá að setjast aftur á skólabekk, oft rík af reynslu eftir langa dvöl á vinnumarkaðinum, og uppgötva að nám er ekki lengur einhver óyfirstíganlegur hlutur heldur eitthvað sem hægt er að hafa gaman af“.
Kynntu þér námið hér
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta