Máttur kvenna í Tansaníu í þriðja sinn 10. febrúar 2017

Máttur kvenna í Tansaníu í þriðja sinn

Máttur kvenna var haldið í þriðja sinn í Bashay, þorpi í norðurhluta Tansaníu, dagana 23. janúar – 2. febrúar síðastliðinn og tóku um tuttugu konur virkan þátt í námskeiðinu. Námskeiðið er á vegum samtakanna Women Power en er haldið í nánu samstarfi við Háskólann á Bifröst sem hefur lagt til kennara öll árin sem það hefur verið kennt.

Að þessu sinni voru það Dr. Auður H Ingólfsdóttir og Dr. Magnús Árni Skjöld Magnússon sem fóru sem kennarar á vegum skólans. Markmið námskeiðsins er að valdefla konurnar, aðstoða þær við að finna viðskiptatækifæri í sínu nærumhverfi, vinna einfalda viðskiptaáætlun og fara af stað í rekstur. Flestar þær konur sem tóku þátt að þessu sinni höfðu verið á fyrsta eða öðru námskeiðinu og margar voru þegar komnar af stað í rekstur. Sumar höfðu byrjað en gefist upp og tóku viðbótarnámskeiði fagnandi sem lið í að styrkja sig frekar.

Fjárfestingarsjóður stofnaður fyrir konurnar

Í framhaldi af námskeiðinu stendur til að stofna lítinn fjárfestingarsjóð þar sem konurnar geta sótt um lán til að hefja rekstur eða stækka við sig, en skortur á fjármagni hefur verið einn helsti þröskuldur þess að konunum hafi tekist að hefja rekstur. Fjárfestingarsjóðurinn er mögulegur vegna veglegs styrks úr samfélagssjóði Virðingar, AlheimsAuði, en styrkur úr sjóðunum stóð einnig að stórum hluta undir kostnaði við sjálft námskeiðið.

Auk AlheimsAuðar þá studdi Hagvangur við verkefnið að þessu sinni með gjöf á fimm tölvum sem nýttust vel við kennslu í námskeiðinu og konurnar munu hafa aðgang að áfram. Þá styðja Háskólinn á Bifröst og Tanzanice Farm myndarlega við verkefnið WOMEN POWER með láni á starfsfólki og aðstöðu.

Á myndinni má sjá teymið sem stóð að námskeiðinu að þessu sinni. Auk þeirra Auðar og Magnúsar Árna – sem komu frá Háskólanum á Bifröst - var með í för Kristrún Pétursdóttir, BS í næringarfærði, sem tók þátt sem starfsnemi. Viðar Viðarson var gestgjafi okkar á TanzanIce farm og Restituta Joseph var tengiliður okkar á staðnum sem hélt utan um alla praktíska þræði.

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta