Máttur kvenna í Tansaníu 25. janúar 2016

Máttur kvenna í Tansaníu

Háskólinn á Bifröst undirbýr nú í annað sinn námskeiðið Máttur kvenna í Tasaníu (WOMEN POWER). Markmið námskeiðsins er að aðstoða konur að finna viðskiptatækifæri í nærumhverfi sínu, vinna einfalda viðskiptaáætlun og fara af stað í atvinnurekstur. Fyrsta námskeiðið var haldið í apríl 2015 og þá tóku ríflega 50 konur þátt. Þær fá nú tækifæri til að ráðfæra sig við kennara á námskeiðinu og fá áframhaldandi stuðning við uppbyggingu viðskiptahugmyndarinnar. Saumastofa og sápugerð eru dæmi um viðskiptahugmyndir sem konurnar komu fram með og verður fróðlegt að sjá hvernig þeim hefur vegnað.

Þrír kennarar munu halda utan um miðjan febrúar en það eru Dr. Anna Elísabet Ólafsdóttir, Geirlaug Jóhannsdóttir og Hulda Ingibjörg Rafnarsdóttir. Anna Elísabet er máttarstólpi verkefnisins og þekkir vel til í Tansaníu. Geirlaug og Hulda hafa tengst Mætti kvenna á Bifröst um árabil og hafa mikla reynslu af því að efla og mennta konur. Námskeiðið fer fram í þorpinu Bashay í norðurhluta Tansaníu í Afríku sunnan Sahara.

Fjármögnun á Karolina fund gerði það að verkum að hægt er að halda námskeiðið í ár og styðja fjárhagslega við verkefni kvennanna sem annars hafa enga aðra möguleika á fjármögnun, en námskeiðið er konunum að kostnaðarlausu. Þá styðja Háskólinn á Bifröst og Tanzanice Farm myndarlega við verkefnið WOMEN POWER. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta