Markhópagreining miðar að því að koma auga á nýja hópa ferðamanna til landsins 15. desember 2016

Markhópagreining miðar að því að koma auga á nýja hópa ferðamanna til landsins

Háskólinn á Bifröst gaf nýverið út skýrslu vegna Markhópagreiningar fyrir íslenska ferðaþjónustu, en skýrslan er liður í samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, Háskólans á Akureyri og Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Skýrslan er önnur í röð þriggja en fyrstu niðurstöður verkefnisins birtust í útgáfu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála fyrr á þessu ári.

Skýrsla þessi er niðurstaða forprófunar á spurningalíkani sem lagt var fyrir í tveimur mikilvægum mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu, Þýskalandi og Bretlandi. Spurningalíkanið var hannað í fyrsta fasa þessarar rannsóknar sem má sjá nánar í skýrslu eitt hér

Tölfræðigreining á gögnunum leiddi í ljós fjóra hópa í hvoru landi fyrir sig sem komu fram með klasagreiningu (e. cluster analysis). Hópunum var svo lýst nánar með því að rýna betur í það sem einkenndi þá, svo sem viðhorf náttúru, menningar, ferðahegðunar og áhugamála sem dæmi. Einnig var spurningalíkanið rýnt með tilliti til tölfræði og lagt mat á hvort einhverjar spurningar væru veikar eða marklausar.

Skýrslan er unnin samkvæmt samningi Háskólans á Bifröst við  Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sem gerður var 2015 og hana má nálgast hér. 

Þriðja skýrslan væntanleg árið 2017

Háskólinn á Bifröst og Rannsóknarmiðstöð ferðamála/Háskólinn á Akureyri hafa á síðustu misserum í sameiningu unnið að markhópagreiningu fyrir íslenska ferðaþjónustu. Markmiðið er að finna nýja hópa sem hafa áhuga á Íslandi og vilja ferðast til landsins, fá upplýsingar um þá til að búa til góða lýsingu af þeim sem myndi nýtast í markaðssetningu hjá Íslandsstofu og fyrirtækjum í ferðaþjónustu á Íslandi. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Íslandsstofu sem mun leiða miðlun og kynningu niðurstaðna til hagsmunaaðila í ferðaþjónustu á vormánuðum næsta árs.

Áætlað er að næsta skýrsla og sú þriðja og síðasta komi út á vormánuðum 2017 sem verður unnin af Háskólanum á Bifröst, Íslandsstofu og Rannsóknamiðstöð ferðamála á Akureyri. Hún verður greining á markhópum á sjö markaðssvæðum þar sem endanlegt spurningalíkan verður sent út og lagt fyrir þátttakendur í viðkomandi löndum.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta