Markaðsmanneskja ársins slær í gegn 14. nóvember 2022

Markaðsmanneskja ársins slær í gegn

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi Blush var gestafyrirlesari á síðari staðlotu grunnnema haustið 2022. Fyrirlesturinn var ætlaður viðskiptafræðinemum í áfanganum markaðsfræði 1.

Gerður er handhafi titilsins Markaðsmanneskja ársins 2021, valin af ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi og því fór vel á því að hún miðlaði uppbyggingu markaðsstarfs Blush til nemenda í markaðsfræðinámi við skólann. 

Í erindi sínu fór Gerður yfir söguna, allt frá stofnun fyrirtækisins árið 2011 með 200.000 kr. láni sem hún fékk hjá föður sínum til kaupa á kynlífstækjum til endursölu, og fram á þennan dag.

Óhætt er að segja að Gerður Huld státi af glæsilegum árangri í markaðsmálum, en auk þess sem hún var valin Markaðsmanneskja ársins 2021, var Blush valið Besta íslenska vörumerkið í úttekt Brandr í fyrra. Þá var fyrirtækið jafnframt í þriðja sæti í úttektinni Meðmæling Maskínu fyrr á þessu ári.

Í erindi Gerðar var sérstök áhersla lögð á samsetningu markaðsáætlunar, markaðsstefnu Blush og markhópa og sýnd voru nokkur dæmi um vel heppnaðar markaðsaðgerðir fyrirtækisins.

Nemendur tóku erindinu fagnandi og þótti Gerður hitta beint í mark hjá þeim m.t.t. námsefnis áfangans.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta