Lokaverkefni vekur verðskuldaða athygli
Lokaverkefni Ögmundar Ísaks Ögmundssonar í Miðlun og almannatengslum um áhrif upplýsingaóreiðu á lýðheilsu hefur vakið verðskuldaða athygli.
Ögmundur var nýlega í athyglisverðu viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, en grein sem hann birti á visi.is um lokaverkefnið hafði fangað athygli þáttastjórnenda.
Niðurstöður sínar byggir Ögmundur m.a. á rannsókn sem hann gerði á upplýsingaóreiðu um næringu og mataræði á íslenskum samfélagsmiðlareikningum og í íslenskum fjölmiðlum.
Ögmundur bendir m.a. á að nú í upphafi árs, þegar líkamsræktarstöðvar fyllast og vart verði þverfótað fyrir hvers kyns auglýsingum um fæðubótaefni, töflur og töfralausnir, geti það virst ofur einfalt að komast í besta form lífs síns. „[O]g allt virðist svo auðvelt. Trúið mér, ég hef fallið fyrir þessu öllu saman,“ bendir Ögmundur hreinskilningslega á í grein sinni á Vísi.
Rannsókn Ögmundar leiðir m.a. í ljós að mikið magn misgóðra upplýsinga um næringu og mataræði sé í umferð á íslenska hluta Instagramsins og vefmiðlum. Þannig innihélt sem dæmi tæplega þriðjungur íslenskra Instagram reikninga ráðleggingar sem fara gegn opinberum leiðbeiningum Landlæknis um næringu.
Þá tekur Ögmundur janframt fram, að minna en helmingur þeirra einstaklinga sem standa á bak við viðkomandi reikninga hafa háskólamenntun sem tengist umfjöllunarefninu, og af þeim fimm reikningum sem höfðu flesta fylgjendur var einungis einn eigandi sem hafði háskólamenntun í viðkomandi fagi. Svipað hafi verið uppi á teningnum hvað vefmiðla varðar, en þar reyndist um helmingur umfjallana um næringu eða mataræði koma frá þjóðþekktum einstaklingi en einungis þriðjungur frá fagfólki.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta