Lokaverkefni í menningarstjórnun til góða fyrir ungmenni um land allt 10. desember 2020

Lokaverkefni í menningarstjórnun til góða fyrir ungmenni um land allt

Skjálftinn verður haldinn í fyrsta sinn í Þorlákshöfn í vor og hafa allir skólar í Árnessýslu fengið boð um að taka þátt. Skjálftinn er hæfileikakeppni sem byggð er á Skrekk sem Reykjavíkurborg hefur haldið í 30 ár fyrir ungmenni í grunnskólum borgarinnar. Verkefnið hlaut hæsta styrk þegar Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, SASS, úthlutaði menningarstyrkjum í haust. Styrkurinn nam 1.500.000 kr. en Sveitarfélagið Ölfus hefur einnig styrkt verkefnið um 500.000 kr.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir er foreldri í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og MCM-nemandi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún átti frumkvæðið að því að halda Skjálftann í Árnessýslu en í lokaverkefni sínu í náminu á Bifröst hyggst hún útbúa handbók sem sem nýta má til að innleiða Skrekks-líkanið um allt land. „Nú þegar ég er að fara í gegnum það ferli að aðlaga Skrekk að Suðurlandi sá ég tækifæri til að búa til þessa afurð, handbókina, til að auka líkurnar á að ungmenni víðar um land fái tækifæri til að þroska hæfileika sína á þennan hátt. Þá þurfa ekki allir að finna upp hjólið og byrja á byrjunarreit heldur geta áhugasamir fylgt handbókinni sem leiðir þá áfram í ferlinu frá hugmyndinni að keppninni sjálfri,“ segir Ása Berglind.

Í samtali við Sunnlenska segir Ása Berglind að fyrir hana hafi skipt öllu máli hversu jákvæð Harpa Rut Hilmarsdóttir sem hefur séð um Skrekk síðustu ár hafi verið í garð verkefnisins. Hún hafi verið viljug að deila reynslu og aðstandendur Skrekks fagnað því að verkefnið breiddist út.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta