24. júní 2019

Lokaráðstefna Erasmus+ samstarfsverkefnisins INTERFACE

Lokaráðstefna Erasmus+ samstarfsverkefnisins INTERFACE fór fram 20. júní síðastliðinn að Ljósheimum við Sauðárkrók. Verkefnisheitið vísar til titls þess á ensku „Innovation and Entrepreneurship for Fragile Communities in Europe“, sem þýða mætti sem „Nýsköpun og frumkvæði í brothættum byggðarlögum í Evrópu“.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar setti ráðstefnuna og fjallaði í erindi sínu um reynsluna af því að alast upp, lifa og starfa í smærri samfélögum. Hún ræddi þær áskoranir sem brothætt byggðalög standa frammi fyrir, mikilvægi menntunar og uppbyggingu innviða, en einnig þann kraft sem felst í samheldni íbúa og þátttöku í samfélagi. Að loknu erindi Ásthildar fjölluðu þátttakendur INTERFACE verkefnisins um niðurstöður verkefnisins og kynntu námsskrá og kennsluefni sem þróað hefur verið. Að lokum sögðu þeir Óttar Kárason, úr verkefnisstjórn Brothættra byggða á Borgarfirði Eystri og Skúli Gautason, verkefnisstjóri Brothættra byggða í Árneshreppi frá sinni sýn af verkefnum byggðaþróunar, og reynslu sinni af þátttöku í verkefninu INTERFACE.

INTERFACE verkefnið miðar að því að valdefla íbúa brothættra byggðarlaga með það að markmiði að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarf í byggðarlögunum.  Þátttaka íbúa í hvers kyns byggðaþróunarverkefnum er lykilatriði. Bæði hefur það sýnt sig að slíkt starf eflir samfélagsvitund þeirra sem taka þátt, en einnig felast mikil verðmæti í þekkingu íbúanna á sérstöðu, innviðum og tækifærum sinnar heimabyggðar. Verkefnið byggir á þarfagreiningu sem unnin var innan þátttökubyggðarlaganna. Þjálfun íbúa byggir einnig að hluta á aðferðum markþjálfunar. Íbúar öðlast færni til að vinna með og virkja aðra íbúa samfélags til framþróunar þess og skipulögðu þau vinnustofur í sínum byggðarlögum þar sem unnið var að einhvers konar samfélagsþróun.

Verkefnið INTERFACE er stefnumiðað samstarfsverkefni í fullorðinsfræðslu, fjármagnað með styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandins.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta