Ljósmyndasýningin Samvinnuhús opnuð á Bifröst 26. nóvember 2018

Ljósmyndasýningin Samvinnuhús opnuð á Bifröst

Á 100 ára afmæli Háskólans á Bifröst og fyrrum Samvinnuskóla, verður opnuð formlega þann 3. desember 2018 kl. 12:30,  ljósmyndasýningin Samvinnuhús. Sýndar verða ljósmyndir, gamlar og nýjar af öllum húsum og byggingum, þar sem Samvinnuskólinn var til húsa fram að árinu 1982, bæði í Reykjavík og á Bifröst.

Einnig verða myndir af orlofshúsum í landi Hreðavatns og í nágrenni Bifrastar sem byggð voru á sínum tíma af félögum samvinnustarfsmanna – alls 25 hús. Með hverri mynd á sýningunni fylgir fróðlegur texti.

Samvinnuhús er samheiti á ljósmyndaverkefni, þar sem teknar hafa verið myndir af öllum húsum á landinu þar sem áður var starfsemi á vegum samvinnufélaga frá 1882 til 1982. Alls voru húsin um 1600 talsins. Nú er verið að safna eldri myndum af þessum húsum og undirbúa sérstakar ljósmyndasýningar í öllum landshlutum. Verður ljósmyndasýningin á Bifröst sú fyrsta í röðinni, en á árinu 2019 eru áformaðar sýningar á einum fjórum stöðum á Vesturlandi.

Það er félagið Fífilbrekka sem stendur að sýningunni í samstarfi við Háskólann á Bifröst. Hönnuðir sýningarinnar eru: Ívar Gissurarson bókaútgefandi og Guðjón Hauksson grafískur hönnuður. Höfundur texta: Reynir Ingibjartsson. Sýningin opnar á stofndegi Samvinnuskólans þann 3. desember næstkomandi og fer formleg opnun fram í Hriflu, hátíðarsal háskólans, sýningin verður síðan opin út afmælisárið.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta