Ljósmyndafélagið á Bifröst og Nýherji í samstarf
Í byrjun skólaársins fékk Ljósmyndafélagið Bifröst úthlutað herbergi frá Háskólanum á Bifröst til að starfrækja ljósmyndastúdío og margmiðlunarherbergi fyrir nemendur háskólans. Er herbergið aðgengilegt inn af Frumkvöðlasetrinu EXO sem nemendur eiga einnig. Festi ljósmyndafélagið kaup á ljósmyndastúdío frá Nýherja fyrir örfáum árum og hefur háskólinn samþykkt að gefa félaginu tölvu með helstu forritum tengt ljósmyndun og margmiðlun. Hefur háskólinn einnig sett upp stóran „green screen“ vegg fyrir upptökur.
Í vikunni handsalaði svo Rolando Diaz stjórnarmaður í Ljósmyndafélaginu Bifröst samstarfssamning við Halldór Jón Garðarsson vörustjóra Canon á Íslandi. Snýst samningurinn um kaup á Canon 700D myndavél, flash 270EX og 18-55 linsu á sérkjörum, en á móti fær Canon merki sitt á allar þær myndir sem félagið tekur af viðburðum nemendafélaga á Bifröst. Einnig verður ljósmyndaherbergið skírt Canon herbergið.
Mikið er um áhugaljósmyndara meðal nemenda og hefur markaðssvið háskólans notið góðs af ljósmyndastúdíoi félagsins ásamt því að nemendur hafa aðstoðað við myndatökur á viðburðum tengdum háskólanum. Félagið er virkt og mun standa fyrir ljósmyndakennslu á nýju vélina ásamt fleiri námskeiðum sem tengjast ljósmyndun og margmiðlun. Þess má geta að allir nemendur við Háskólann á Bifröst hafa aðgang að Canon herberginu og tækjabúnaði félagsins. Einnig fá allir nemendur Háskólans á Bifröst sérkjör hjá Nýherja á Canon ljósmyndavörum gegn framvísun Bifrastarkorts.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta