Leiðtogar framtíðarinnar sækja alþjóðlegan sumarskóla við Háskólann á Bifröst 9. ágúst 2016

Leiðtogar framtíðarinnar sækja alþjóðlegan sumarskóla við Háskólann á Bifröst

Alþjóðlegur sumarskóli var haldinn í fyrsta sinn við Háskólann á Bifröst nú í júlí undir yfirskriftinni Skapandi forysta á 21. öldinni. Tilgangur skólans er að undirbúa og þjálfa  leiðtoga framtíðarinnar undir þær áskoranir sem þeirra bíða í sífellt meira krefjandi heimi.

Í sumarskólanum voru kynntar fyrir þátttakendum nýjustu hugmyndir um forystu með tilheyrandi hagnýtri þjálfun. Lögð var áhersla á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð og námsfyrirkomulag með þeim hætti að tvinnað var saman fyrirlestrum og umræðutímum við heimsóknir í fyrirtæki og vettvangsferðir. Heimsótti hópurinn m.a. Sjávarklasann, Rjómabúið Erpsstöðum og Hellisheiðarvirkjun og hlýddi á fyrirlestra um uppbyggingu íslenskra fyrirtækja sem hafa sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi

Víkkar sjóndeildarhring nemenda og kennara

Skólann sóttu 20 þátttakendur frá níu löndum í Evrópu og Asíu, bæði háskólanemar sem og útskrifaðir, og var meðalaldur þátttakenda 24 ár.

 „Það sem hefur komið mér einna helst á óvart er hvað hópurinn smellpassaði saman þrátt fyrir afar mismunandi bakgrunn þátttakenda og meðal þeirra myndaðist mikil vinátta. Sameiginlegur áhugi á viðfangsefninu virðist því hafa náð að sameina fólk, sem er skemmtilegt, og sannfærir okkur um að slíkur skóli verði hér eftir árlegur viðburður við Háskólann á Bifröst,“ segir Karl Eiríksson alþjóðafulltrúi Háskólans á Bifröst.

Þá segir Karl að þátttakendum hafi fundist ótrúleg upplifun að geta sett flöskuna sína í næsta læk til að fylla hana af vatni og það hafi verið stór partur af upplifuninni að skoða Ísland. Hópurinn ferðaðist m.a. í Húsafell og fór í hellaleiðangur, fór á sjóstöng og eldaði aflann og fagnaði síðasta daginn með hestaferð, hátíðarkvöldverði og varðeldi.

„Skóli sem þessi er mikilvægur bæði fyrir kennara og þátttakendur enda víkkar hann sjóndeildarhring beggja hópa,“ segir Karl en leiðbeinendur skólans komu frá Háskólanum á Bifröst auk þess sem gestakennarar komu frá Austurrríki, Þýskalandi og Danmörku.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta