Laufey Sif Ingólfsdóttir vekur athygli fyrir rannsókn á andlegri líðan fangavarða
18. nóvember 2025

Laufey Sif Ingólfsdóttir vekur athygli fyrir rannsókn á andlegri líðan fangavarða

Laufey Sif Ingólfsdóttir, mastersnemi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst, hefur vakið athygli með rannsókn sinni á andlegri líðan fangavarða á Íslandi. Rannsóknin var kynnt á Þjóðarspegilinum og hefur verið til umfjöllunar fjölmiðla.

„Ég vinn í þannig umhverfi sem trúnaður ríkir yfir starfinu, það getur komið ýmislegt upp og þú þarft að bera það á herðum þínum. Ég vinn þannig sjálf svo að það var kveikjan að grunninum,“ sagði Laufey í samtali við Vísi um kveikjuna að rannsókninni. Fram kemur á Vísi að Laugey hafi ákveðið rannsaka starf fangavarða þar sem málefni þeirra voru mikið til umræðu á þeim tíma. Engar nýlegar rannsóknir höfðu verið framkvæmdar á starfi fangavarða sem Laufey Sif fannst furðulegt. Eftir að hafa, með smá erfiðleikum, fundið átta fangaverði til að ræða við kom í ljós að þeir upplifa gríðarlegt álag í starfi sínu.

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á tilfinningavinnu fangavarða í íslenskum fangelsum og hvernig starfið hefur áhrif á andlega líðan, faglega sjálfsmynd og viðbrögð við álagi. Niðurstöðurnar byggja á viðtölum við átta fangaverði frá öllum fangelsum landsins og sýna að andlegt álag er stöðugt viðvarandi og „bakgrunnshljóð“ í starfinu.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður lýstu viðmælendur því að samstaða, húmor og jákvæð samskipti gerðu starfið gefandi og stuðluðu að faglegu stolti. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að líta á andlega heilsu fangavarða sem skipulagslegt verkefni með markvissum stuðningi og faglegri eftirfylgni.

Sjá umfjöllun og viðtal við Laufeyju á Vísi.is.