Stjórn Rannsóknaseturs skapandi greina, að fundi hennar loknum, sem fram fór í húsnæði Háskólans á Bifröst í Borgartúni Reykjavík, þann 8. janúar sl.

Stjórn Rannsóknaseturs skapandi greina, að fundi hennar loknum, sem fram fór í húsnæði Háskólans á Bifröst í Borgartúni Reykjavík, þann 8. janúar sl.

15. janúar 2024

Kraftmikil byrjun hjá RSG

Stjórn og forstöðumaður Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG) héldu vinnusmiðju í síðustu viku til að vinna að stefnumótun og starfsáætlun fyrir setrið. Blásið verður til málþings í marsbyrjun til að kynna þá vinnu og fleira er viðkemur starfsemi RSG og rannsóknum á atvinnulífi menningar og skapandi greina en markmið setursins er að efla rannsóknir og rannsóknavirkni á því sviði. Í því skyni verður boðið upp á verkefnastyrki til meistaranema sem hafa áhuga á að vinna rannsóknarverkefni á atvinnulífi menningar og skapandi greina. Tilkynnt verður um nánari útfærslu verkefnastyrkjanna síðar í mánuðinum. 

Þess má svo geta að þrátt fyrir ungan aldur, hefur RSG þegar tekið að sér tvö þjónustuverkefni, en setrið hóf starfsemi í október sl. Annars vegar er um að ræða úttekt um íslenskan tónlistarmarkað, fyrir European Music Exporters Exchange (EMEE) með stuðningi aðila úr íslenska tónlistarbransanum, og hins vegar rannsókn á vegum Kulturanalys Norden. 

Úttektin um íslenskan tónlistarmarkað er hluti af stærra verkefni á vegum EMEE og sambærilegar úttektir eru gerðar í öðrum Evrópulöndum. Markmiðið er að til verði opinberar leiðbeiningar um hvert land, til að styðja við útflutningsþróun tónlistarfólks inn á ný svæði. Fimm lönd hafa þegar unnið slíkar leiðbeiningar og þær má finna á vefsíðu EMEE. Hjá Kulturanalys Norden er unnið að safnriti rannsókna á samspili innlends styrkumhverfis innan Norðurlandanna annars vegar og norrænum sjóðum hins vegar. Markmiðið er að skoða hvernig innlendir sjóðir tengjast þeim norrænu í gegnum fólk og verkefni, og hvernig samspil fjármögnunar er á milli kerfa. Áætlað er að safnritið verði gefið út í ársbyrjun 2025. 

Á ljósmyndinni er stjórn setursins, f.v. Kristrún Heiða Hauksdóttir, ráðherraskipuð, Laufey Haraldsóttir, Háskólinn á Hólum, Hulda Stefánsdóttir, Listaháskóli Íslands, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, ráðherraskipaður formaður, Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona, Stefán Hrafn Jónsson, Háskóli Íslands, Halla Helgadóttir, Samtök skapandi greina, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Háskólinn á Bifröst. Á myndina vantar Eyjólf Guðmundsson frá Háskólanum á Akureyri.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta