Kennsla í nýju alþjóðlegu meistaranámi hefst næsta haust
Haustið 2019 hefst kennsla í nýju meistaranámi, alþjóðlegri stjórnmálahagfræði og er námið alfarið kennt á ensku. Námið er alþjóðlegt og hægt að stunda hvar sem er í heiminum. Námið er aðeins kennt í fjarnámi og hægt að mæta á vinnuhelgar og aðra hóptíma rafrænt. Námið er það eina sinnar tegundar á Íslandi og er fyrsta stóra skrefið í átt að aukinni alþjóðavæðingu skólans. Eins og kom fram í ræðu Vilhjálms Egilssonar, rektors skólans á brautskráningu í febrúar síðastliðnum þá þýðir kyrrstaða í skólastarfinu eiginlega afturför. Aukið framboð náms á ensku fjölgar ekki aðeins námstækifærum þeirra sem búa hérlendis og hafa íslensku ekki að móðurmáli heldur eykur það samkeppnishæfni skólans erlendis. Þetta er fyrsta námslínan sem kennd er alfarið á ensku við skólann. Um árabil hafa sumir áfangar verið kenndir á ensku í grunnnámi og hefur það reynst vel.
„Námið í Alþjóðlegri stjórmálahagfræði (International Political Economy – IPE) er alfarið kennt á ensku og tekur á stærstu áskorunum samtímans á alþjóðavettvangi. Með þeim hætti eflir það hæfni þeirra sem í gegnum það fara til að láta til sín taka á þeim vettvangi og láta gott af sér leiða. Við viljum laða til okkar alþjóðlegan hóp nemenda og búa til öflugt tengslanet sem getur miðlað innbyrðis af ólíkri reynslu. Við viljum bjóða upp á kennara sem hafa praktíska innsýn í alþjóðleg viðfangsefni. Velkomin í IPE á Bifröst!“ Segir Magnús Árni Skjöld Magnússon, forseti félagsvísinda- og lagadeildar um námið.
Námið er þverfaglegt og byggir á traustum stoðum skólans sem leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð og sveigjanleika í allri kennslu. Námið gerir nemendum kleift að taka ábyrgð á alþjóðlegum vettvangi svo sem í alþjóðlegum stofnunum, frjálsum félagasamtökum, fjölþjóðlegum fyrirtækjum og fjölmiðlum þar sem skilningur á samspili hagfræði og stjórnmála í alþjóðlegu samhengi er mjög mikilvægur.
Nánar er hægt að kynna sér námið hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta