Karlmenn sækja í öryggisfræði
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fjallar vítt og breitt um öryggisfræði og almannavarnir, nýtt grunnnám sem hefur göngu sína við Háskólann á Bifröst næsta haust, í athyglisverðu viðtali sem birtist í liðinni viku á vef Morgunblaðsins.
Í viðtalinu segir Ólína m.a. að það krefjist menntunar og þjálfunar að geta brugðist við hinum ýmsu öryggisógnum á borð við efnahagshrun, covid-heimsfaraldur, eldgos og náttúruhamfarir.
Öryggisfræði og almannavarnir sé jafnframt fyrsta grunnnámið á háskólastigi hér á landi sem tileinkað sé þessum þáttum, nám sem teygi sig yfir nokkur fræðasvið, þar á meðal áfallastjórnun, opinbera stjórnsýslu, lögfræði, stjórnunarfræði og miðlun og almannatengsl. Meistaranám í áfallastjórnun hafi enn fremur verði í boði við HB undangengin þrjú skólaár og grunnnám í faginu hafi því legið nokkuð beint við.
Þá er nýja námslínan að sögn Ólínu ekki síður hugsuð með það fyrir augum að höfða til karlmanna. Ástæðan sé fyrst og fremst sú að karlmönnum fari stöðugt fækkandi í háskólanámi og því sé mikilvægt að skoða hvaða nám geti höfðað til karla sem markhóps.
„Við verðum að játa að karlmenn hafa átt undir högg að sækja í skólakerfinu og eru aðeins um þriðjungur námsmanna í háskólum landsins, staðan er orðin þannig,“ segir Ólína. Byrjunin lofi jafnframt góðu þar sem drjúgur hluti umsækjanda í nýja grunnnámið hafi reynst karlar.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta