Jón Sigurðsson fyrsti rektor Samvinnuháskólans á Bifröst er látinn 13. september 2021

Jón Sigurðsson fyrsti rektor Samvinnuháskólans á Bifröst er látinn

Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri og fyrsti rektor Samvinnuháskólans á Bifröst, er látinn 75 ára að aldri. 

Jón tók við starfi skólastjóra Samvinnuskólans á Bifröst árið 1981 og varð síðar fyrsti rektor samvinnuháskólans. Því embætti gegndi hann til ársins 1991 en sinnti kennslu á staðnum eftir það.

Jón var við stjórnvölinn þegar samvinnuskólinn var færður upp á háskólastig og stýrði skólahaldi af festu. Samferðarfólki hans og nemendur á Bifröst minnast hans með virðingu og hlýju.

Jón var fæddur í Kollafirði á Kjalarnesi þann 23. ágúst 1946. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1966 og þremur árum síðar brautskráðist hann með BA-próf í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Frá útskrift í MR kenndi hann við gagnfræðaskóla, menntaskóla og háskóla hér á landi og í Svíþjóð fram til ársins 1975.

Jón útskrifaðist með MA gráðu í menntunarfræðum og kennslustjórnun frá Columbia Pacific University í San Rafael í Bandaríkjunum árið 1988 og doktorsgráðu í sömu greinum árið 1990. Þá lauk hann MBA-gráðu í rekstrarhagfræði og stjórnun frá National University í San Diego í Bandaríkjunum árið 1993.

Jón var Jón var ritstjóri Tímans frá 1978 til 1981. Eftir veru sína á Bifröst varð hann seðlabankastjóri árin 2003 til 2006. Árið 2006 tók hann, utan þings, við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, og gegndi því til ársins 2007. Á sama tíma og hann gegndi ráðherraembættinu var hann um tíma formaður Framsóknarflokksins.

Ásamt fjölmörgum trúnaðarstörfum verður Jóns Sigurðssonar einkum minnst sem fræðimanns og skólamanns á Bifröst. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Sigrún Jóhannesdóttir. Þau áttu saman tvo syni en fyrir átti Sigrún eina dóttur.

Blessuð sé minning Jóns Sigurðssonar.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta