Jólakötturinn í nútímabúning
Kvæðið um Jólaköttinn eftir Jóhannes úr Kötlum er eitt þekktasta jólakvæði þjóðarinnar. Allt frá því það birtist fyrst hefur þessi ógnvekjandi köttur verið órjúfanlegur hluti af íslenskri jólahefð. Nú er kvæðið komið út í glæsilegri nýrri útgáfu þar sem listamaðurinn Þórarinn Leifsson myndskreytir söguna á sinn einstaka hátt.
Einar Svansson prófessor við viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst, á ríkt persónulegt erindi við þessa útgáfu en hann er barnabarn Jóhannesar úr Kötlum. Einar sem hefur kennt við Bifröst frá árinu 2006, sérhæfir sig í stjórnun, nýsköpun og sjálfbærni, en hann segir nýju útgáfuna einmitt vera ákveðna nýsköpun á rótgrónum menningararfi.
Jólakötturinn og kapitalisminn Í þessari nýju útgáfu stekkur Jólakötturinn fram á ferskan og nútímalegan hátt. Teikningar Þórarins gera hann bæði skelfilegan og skemmtilegan í senn, en hann er sýndur í bland við nútímatækni og samfélag dagsins í dag.
„Ég hef alltaf haft þá trú að afi hafi raunverulega verið að persónugera kapitalismann sem hugmynd í Jólakettinum. Hann pínir börnin áfram og ef þau standa sig ekki við vefstólinn þá kemur ekki neitt gott úr því. Afi var alltaf að reyna að verja börnin og þá sem minna mega sín,“ segir Einar, í Morgunvaktinni á RÚV.
Hann bætir því við að í myndum Þórarins megi jafnvel sjá köttinn sem eins konar harðstjóra eða millistjórnanda í stóru kerfi, sem rímar vel við höfundaverk Jóhannesar og réttlætiskennd hans. Erfitt að feta í fótspor Tryggva.
Í áratugi hefur Jólakötturinn fylgt upprunalegum teikningum Tryggva Magnússonar. Einar segir að fjölskyldan hafi lengi verið vör um sig um varðndi nýja útgáfu og myndskreytingar en að lokum ákveðið að leita til Þórarins um nýjar myndskreytingar. „Við vissum alltaf að það yrði erfitt að feta í fótspor Tryggva. En þegar Páll bróðir minn benti á sterkan stíl Þórarins Leifssonar, gátum við sannfært fjölskylduna um að gera þessa tilraun. Útkoman er framar okkar björtustu vonum.“
Hafnaði boði frá Hollywood
Áhugi á Jólakettinum nær langt út fyrir landsteinana og greinir Einar frá því að fjölskyldunni hafi borist stór tilboð frá Hollywood um nýtingu á persónunni. Eftir ítarlega skoðun lögfræðinga var þeim hins vegar hafnað til að tryggja að íslenski jólaarfurinn glataðist ekki úr höndum fjölskyldunnar.
Jóhannes úr Kötlum (1899–1972) var eitt afkastamesta skáld sinnar samtíðar og mýkti hann upphaflegu þjóðsögurnar um jólasveinana og aðrar kynjaverur til að þær gætu lifað með þjóðinni.
Einar Svansson sem auk þess að standa vörð um fjölskylduarfinn er lykilmaður í námi í stjórnun og nýsköpun á Bifröst, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og akademíunni. Hann hefur meðal annars leitt uppbyggingu alþjóðlegs sumarskóla við Bifröst þar sem áhersla er á sjálfbærni og leiðtogahæfni.
Háskólinn á Bifröst fagnar með Einari og fjölskyldu Jóhannesar. Ný útgáfa er glæsileg og nú er Jólakötturinn einnig fáanlegur á ensku fyrir erlenda lesendur.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta