Jafnréttisdagar 2023
Yfir 20 áhugaverðir stað- og fjarviðburðir verða í boði á Jafnréttisdögum, einu stærsta samstarfsverkefni háskólanna, dagana 6. - 9. febrúar nk.
Jafnréttisdagar verða settir í hádeginu mánudaginn 6. febrúar með viðburði á vegum samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna. Þar munu Bjarni Snæbjörnsson leikari, skemmtikraftur og rithöfundur og Svandís Anna Sigurðardóttir, sérfræðingur í hinsegin- og kynjajafnréttismálum á Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, ræða það bakslag sem orðið hefur í hinseginbaráttunni undanfarin misseri. Viðburðurinn verður í beinu streymi og opinn öllum.
Alls verða yfir 20 spennandi stað- og fjarviðburðir á boðstólum á Jafnréttisdögum í ár. Auk áðurnefndra umfjöllunarefna verður rætt um upplifanir háskólanema með erlendan bakgrunn, örugg rými og valdatengsl í kennslu og mikilvægi UN Women á alþjóðavettvangi. Þá verður veitt innsýn í baráttu kynlífsverkafólks, starfsemi félagsins Hinsegin Vesturland og rætt um hvítleikann í íslenskri samtímalist.
Enn fremur hyggst fólk sem skilgreinir sig einhverft, hvort sem það hefur greiningu eða ekki, standa fyrir hittingi og kynjafræðinemar í framhaldsskólum ætla ásamt kennurum að ræða kynlífsmenningu, rasisma og kynjafræði. Einnig verða forvarnir og viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi gegn ungmennum og kynferðisleg áreitni á vinnumarkaði til umræðu.
Botninn verður svo sleginn í Jafnréttisdaga fimmtudaginn 9. febrúar með ráðstefnunni „Vald, forréttindi og öráreitni“ sem háskólarnir standa saman að. Ráðstefna, sem stendur frá kl. 10-16 fer fram bæði í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands og verður einnig send út á netinu.
Sjá dagskrá Jafnréttisdaga hér
Nálgast má fjarviðburði á Facebook-síðu Háskólans á Bifröst eða Jafnréttisdaga
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta