8. febrúar 2022

Jafnréttisdagar 2022

Fjöldi áhugaverðra viburða er á dagskrá jafnréttisdaga, 14. til 18. febrúar nk.

Dagarnir verða að mestu stafrænir, en á dagskrá eru ríflega 20 viðburðir sem spanna allt frá stafrænu ofbeldi og slaufunarmenningu að hinseginvænum háskólum og hringrásarkerfi textíls sem jafnréttismáli.

Framlag Háskólans á Bifröst er málstofa á vegum nemendafélagsins þar sem rætt verður um jafnrétti til menntunar út frá ólíkum hliðum.

Sameiginlegir viðburðir háskólanna eru að þessu sinni fjórir talsins. Rektorar háskólanna munu koma saman í opnu streymi í hátíðarsal Háskóla Íslands 14. febrúar og ræða framtíðarsýn háskólanna í jafnréttismálum. Umræðustjóri er Ingibjörg Dögg Stefánsdóttir, ristjóri Stundarinnar. Er þessi rektorspanell jafnframt opnunarviðburður jafnréttisdaga.

Hinsegin fræðsla og hinseginvænt háskólasamfélag er yfirskrift annars sameiginlegs viðburðar, sem fer fram í beinu streymi 15. febrúar. Tótla I. Sæmundsdóttir fræðslustýra Samtakanna '78 verður með opið fræðsluerindi fyrir allt starfsfólk og nemendur háskólanna.

Þá snýr þriðji sameiginlegi viðburðurinn að stafrænu ofbeldi, þróun þess og hvernig það birtist. Aðalfyrirlesari er Dr. María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Þessi mikilvæga umræða fer fram í beinu streymi 16. febrúar.

Jafnréttisdögum lýkur svo með nemendapaneli allra háskólanna og uppistandi í beinu streymi þann 18. febrúar. Umræðum stýrir Chanel Björk Sturludóttir, baráttu- og fjölmiðlakona, en fulltrúi Bifrastar í panelnum er Erla Björg Eyjólfsdóttir, meistaranemi. Lokapunkt jafnréttisdaga setur síðan uppistandarinn Stefán Ingvar Vigfússon, að panelumræðum loknum.

Jafnréttisdagar háskólanna eru helgaðir hinum ýmsu víddum jafnréttis og femínisma. Í forgrunni er umræðan um fjölbreytileika, forréttindi, þöggun, jafnréttisbaráttu, vald og mismunun. Þeir eru haldnir í samstarfi við ráðuneyti menntamála.

Sjá heildardagskrá á FB síðu jafnréttisdaga.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta