Íslenskar geimrannsóknir
„Geimurinn“ er vaxandi hátækniatvinnugrein sem veltir á ári hverju þúsundum milljóna Bandaríkjadala. Dr. Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent við Háskólann á Bifröst, hefur verið að skoða þau sóknarfæri sem Íslendingar hafa innan þessa nýja hagkerfis, sem eru bæði mörg og áhugaverð.
Miklir efnahagslegir hagsmunir felast í geimnum, að sögn Magnúsar Árna. Sem dæmi bendir hann m.a. á hagnýtingu á sporbaugi jarðar og námavinnslu á loftsteinum, á tunglinu og víðar í „nágrenni“ jarðar. Þá hafa komið fram hugmyndir um tunglið sem miðstöð til að vinna sólarorku, endaer þessi fylgihnöttur okkar baðaður að hluta til í stöðugu sólarljósi.
Þá reynist Ísland hafa ákveðna sérstöðu, einnig á þessu afmarkaða sviði. Felst sú sérstaða m.a. í þeim líkindum sem finna má í íslensku landslagi og náttúru við framandi aðstæður í geimnum, s.s. á mars. Hér má því finna aðstæður sem henta til prófana á vistarverum fólks og vélum alls konar.
Á heildina litið telur Magnús Árni þannig að Ísland hafi fullt tilefni til að setja sér geimferðaáætlun. Slíkar áætlanir snúist ekki um eignarhald á geimfari heldur aðild að þessari ört vaxandi atvinnugrein sem „geimurinn“ stendur fyrir.
Magnús Árni fjallaði um stöðu og sóknarfæri landsins í „geimnum“ í erindi á Þjóðarspeglinum. Erindið vakti verðskuldaða athygli enda ekki margir sem tengja Ísland við ESA, Evrópsku geimvísindastofnunina eða Artemis, bandarísku geimferðaáætlunina.
Rætt var við Magnús Árna um Ísland og geiminn og íslenskar geimrannsóknir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og síðdegisútvarpi Rásar 2.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta