Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið tekið fyrir í nýútkominni bók um samfélagslega ábyrgð
Í nýútkominni bók um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja skrifa þeir Einar Svansson lektor og Stefán Kalmansson aðjúnkt við Háskólann á Bifröst einn kafla. Bókin Corporate Social Performance; Paradoxes, Pitfalls, and Pathways to the Better World er gefin út hjá bókforlaginu Information Age Publishing (IAP) í Bandríkjunum. Bókin samanstendur af ritsrýndum bókarköflum sem eru skrifaðir af ýmsum fræðimönnum víðsvegar að úr heiminum en ritstjóri bókarinnar er Agata Stachowicz-Stanusch.
Jákvæðar vísbendingar í átt að ábyrgri notkun náttúruauðlinda
Kafli þeirra Einars og Stefáns ber heitið Sustainable Management of Renewable Natural Resources - the Case of Fisheries Management Systems. Þar er íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið tekið fyrir sem dæmi um stjórnun endurnýjanlegra náttúruauðlinda byggt á kenningargrunni um sjálfbærnipýramídann. Samkvæmt þessari greiningu hefur íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið skilað umtalsverðum árangri efnahagslega og vísbendingar eru einnig í jákvæða átt umhverfislega. Átakalínur hafa fyrst og fremst snúist um félagslega þátt kerfisins, sanngirni, aðgengi og hvert eigi að vera afgjald atvinnugreinarinnar fyrir notkun á auðlindinni. Bent er á mikilvægi þess að jafnvægi verði sem mest í öllum þremur þáttum pýramídans, það er efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum hlutum hans. Höfundar benda á að huganlega geti aðrar atvinnugreinar sem byggja tilveru sína á nýtingu endurnýjanlegra auðlinda dregið lærdóm af reynslunni af íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu, bæði jákvæðum og neikvæðum þáttum þess.
„Athugun okkar leiðir í ljós að efnahagsleg og umhverfisleg áhrif kerfisins leiða til aukinnar sjálfbærni en félagslegi þátturinn orkar helst tvímælis. Við bendum einnig á að frekari rannsókna er þörf á hvernig ætti að takast á við félagslega þáttinn“, segir Einar Svansson um niðurstöður greininarinnar.
Um bókina
Höfundar einstakra bókarkafla eru með mismunandi bakgrunn þar sem markmiðið er að draga saman hugmyndir, tilvik og mögulegar lausnir varðandi sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og atvinnulífs. Mýmörg dæmi má finna á síðustu árum og áratugum þar sem háttsemi fyrirtækja, innan þjóðríkja og á alþjóðamörkuðum, hefur beðið hnekki sem vekur ýmsar spurningar um siðferði og samfélagslega ábyrgð. Fyrirtæki innan þjóðríkja og í alþjóðlegri starfsemi hafa sífellt meiri áhrif á sitt samfélag og gerð er vaxandi krafa frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum um að starfsemi fyrirtækja fari fram með þeim hætti að þau sýni samfélagslega ábyrgð og taki ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á umhverfi sitt. Krafa er gerð um að fyrirtæki og einstök ríki taki aukið frumkvæði í að veita gott fordæmi og séu tilbúin til að berjast gegn vaxandi vá sem steðjar að umhverfi fólks um allan heim.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta