Hvað varð til þess að KSÍ tók þetta ekki alvarlega? 29. október 2021

Hvað varð til þess að KSÍ tók þetta ekki alvarlega?

Jón Snorri Snorrason, dósent í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst, telur flest benda til þess, að aðgerðarleysi og vanbúnaður hafi hrundið þeirri krísu af stað sem Knattspyrnusamband Íslands glímir nú við.

Ítrekuð mistök í meðhöndlun málsins hafi orðið til þess að krísan stigmagnaðist og varð sífellt erfiðari viðureignar. Sem dæmi um vanbúnað nefnir hann skort á viðbragsáætlunum.

Jón Snorri tekur í dag þátt í málstofunni Íþróttir: fjölbreytt sjónarhorn, sem fer fram á vegum Þjóðaspegilsins. Í erindi sínu, sem ber yfirskriftina Krísa og krísustjórnun innan KSÍ, gerir Jón Snorri grein fyrir því hvernig hann skoðar þetta nýlega dæmi frá Knattspyrnusambandi Íslands út frá fræðasviði krísustjórnunar.

Þessi nálgun telst nokkur nýlunda með hliðsjón af því, að umræða um kríustjórnun hefur enn ekki verið gerð fræðilega skil innan háskólasamfélagsins, heldur hefur henni að mestu leyti verið stjórnað af almannatenglum og álitsgjöfum.

Í erindinu kynnir Jón Snorri m.a. kenningar og rannsóknir Nassims Taleb um svarta svani (e. black swan), sem standa fyrir neikvæð áhrif af völdum ólíklegra og ófyrirséðra atburða og hvernig verja megi skipulagsheildir gegn þessum svörtu svönum.

Spurningarnar sem leitað var svara við í framkvæmd greiningarinnar sneru m.a. að því hver var krísan, hvernig var brugðist við henni og hver voru áhrif hennar á skipulagsheildina og einstaklingana.

Niðurstaða Jóns Snorra er síðan sú, að hvorki skipulagsheildin KSÍ né einstaklingarnir sem tengdust henni hafi brugðist við með þeim hætti, að draga úr krísuástandi og áhrifum krísunnar eða að koma á eðlilegri starfsemi sem fyrst.

Knatt­spyrnu­sam­bandið brást með öðrum orðum illa og seint við þeirri stöðu sem kom upp og gerði flest þau mis­tök er rann­sókn­ir á krís­u­stjórn­un mæla gegn.

Á mbl.is má svo finna áhugavert viðtal við Jón Snorra niðurstöðurnar: Gerðu flest mistökin í bókinni

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta