7. apríl 2022

Hvað má ekki í dag sem mátti áður?

Kominn er út annar þáttur af Hriflunni, nýju hlaðvarpi sem félagsvísindadeild Háskólans við Bifröst gefur út.  

Hriflan beinir enn sjónum að ólgukenndum viðburðum samtímans, en að þessu sinni er það meira umræðan um erfið mál og átakamál sem er í forgrunni, frekar en viðburðirnir sjálfir. Hvernig er nálgunin á erfið mál og átök sem setja mark á umræðuna hverju sinni. Hvað má segja og hvað ekki og á hvaða hátt skiptir máli hvernig hlutirnir eru ræddir? Eru einhver mál erfiðari og þannig mikilvægari en önnur og þá hvaða? Og hvað máttu ekki í dag sem mátti fyrir 5, 10 eða 20 árum?

Af nógu er að taka. Heimsfaraldur geysar enn og nýlega braust út stríð í Evrópu. Ný bylgja af MeToo sýnir að þolinmæði á kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi virðist endanlega á þrotum, en á sama tíma má víða um heim sjá bakslag í mannréttindum. Afganistan féll í hendur Talibana á ný, Viktor Orban vann annan stórsigur í Ungverjalandi og poppúlistar gera hverja atlögu á fætur annarri að fjölbreytileikanum og kynsegin viðhorfum. Og ekki má gleyma hamfarahlýnuninni, sem farin er að segja til sín víða um heim eða rasismanum sem skaut enn og aftur upp sínum gráa kolli hér á landi með ummælum er ráðherra hefur viðurkennt sem óviðurkvæmileg.

Ritstjóri Hriflunnar, Magnús Skjöld, dósent við Háskólann á Bifröst, ræðir við Njörð Sigurjónsson, prófessor og forseta félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, Lenyu Rún Taha Karim, varaþingmann og Andra Snæ Magnason, rithöfund.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta