Höggvið á hnút kyrrstöðu
Er unnt að mynda einfaldan meirihluta fyrir breytingum á stjórnarskrá og þvinga fram ákvörðun á Alþingi þar um í skjóli meirihluta þingmanna, spyr Haukur Logi Karlsson, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst í athyglisverðri grein sem birt er eftir hann á Vísi (heimildin.is, 14. janúar 2024).
Á undanförnum árum hefur umræðan hverfst um afdrif nýju stjórnarskrárinnar, sem sumir telja stjórnmálastéttina hafa svikið þjóðina um, á meðan aðrir telja að hún hafi einfaldlega ekki komist í gegnum það nálarauga sem gert er ráð fyrir varðandi breytingar á stjórnarskrá.
Í greininni bendir Haukur á að meirihlutasamþykki tveggja þinga með alþingiskosningum á milli, þurfi til þess að breyta stjórnarskránni.
Þessi sögulega og lögfræðilega staðreynd gangi þvert á það sem margir upplifa varðandi nýlegar tilraunir til breytinga. Rótina að þeirri tilfinningu má að mati Hauks rekja til viðbótarforsendu sem oft er haldið á lofti af stjórnmálamönnum um að víðtæka sátt eða samstöðu þurfi til þess að unnt sé að breyta stjórnarskránni.
Þessi viðbótarforsenda, sem er ekki að finna í stjórnarskránni, hafi leitt til þess að þeir sem vilja ekki breytingar geta ævinlega rofið samstöðuna með öndverðri afstöðu við meirihlutann. Þannig geti minnihlutinn í reynd stjórnað ferlinu, þvert á það einfalda meirihlutafyrirkomulag sem breytingarákvæði stjórnarskrár gerir ráð fyrir.
„Augljóslega er þessi kyrrstaða mun hagfelldari þeim sem engu vilja breyta heldur en þeim sem vilja breytingar, og því hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé unnt að mynda einfaldan meirihluta fyrir allnokkrum breytingum og þvinga fram ákvörðun á Alþingi þar um í skjóli þess meirihluta,“ ritar Haukur.
Hann bendir síðan á að aðferðafræðilega þversögnin í því að leggja upp með einfalda meirihlutaákvörðun, líkt og gert er í gildandi breytingarákvæði stjórnarskrár, sé að hún auki líkurnar á samstöðu um skynsamlegar breytingar.
Þessi óformlega krafa um að kjörnir alþingisfulltrúar komi sér saman um hófsama lausn, getur síðan verið eins róttæk eða eins íhaldssöm og meirihlutinn vill og telur skynsamlegt þar eð nýtt þing þarf að samþykkja viðkomandi breytingarnar.
Haukur færir þannig rök fyrir því að líklegra sé til árangurs í þessum efnum að ræða breytingar á stjórnarskrá í skugga atkvæðagreiðslu þar sem meirihlutinn ræður, heldur en að gera það í skugga neitunarvalds þar sem hver og einn getur ónýtt ferlið.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta