30. janúar 2024

Hlýtur framgang í stöðu prófessors

Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst samkvæmt niðurstöðu ytri dómnefndar, en hana skipuðu Dr. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus við stjórnmálafræðideild HÍ; Benedikt Bogason, prófessor við lagadeild HÍ, og Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent við viðskiptafræðideild HÍ.

Sigrún lauk doktorsprófi í félagsfræði listgreina frá Háskólanum í Exeter á Englandi árið 2012 en lokaverkefni hennar fjallaði um kóraverk Johanns Sebastians Bach og áhrifa þeirra á enskt kórastarf (einkum Bach-kóra en leiðbeinandi hennar var prófessor Tia DeNora. Jafnframt er hún með MA-gráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst (2009). Þar áður lauk hún kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri (2003) og BA-gráðu í bókmenntum frá Háskóla Íslands (2001). 

Sigrún hefur starfað við Háskólann á Bifröst frá árinu 2008, fyrst innan stjórnsýslu skólans en síðar við rannsóknir og kennslu frá árinu 2010. Hún var skipuð lektor árið 2012 en fékk svo framgang í stöðu dósents árið 2016. Sama ár hlaut hún Marie Sklodowska-Curie rannsóknarstöðustyrk til eins árs dvalar við tónlistardeild Háskólans í Oxford. 

Frá árinu 2015 – 2019 gegndi hún stöðu forseta félagsvísindadeildar og svo forseti sameinaðrar félagsvísinda- og lagadeildar 2017 – 2019. Í starfi sínu á Bifröst hefur Sigrún setið í ýmsum nefndum og ráðum, þar má nefna háskólaráði, fulltrúaráði, gæðaráði, og stjórn Rannsóknasjóðs Háskólans á Bifröst. Auk þess hefur hún sinnt stundakennslu við Háskólann í Reykjavík og verið gestakennari við ýmsa erlenda háskóla, þ. á m.  Háskólann í Exeter í Englandi, Leuphana University Lueneburg í Þýskalandi og Háskólann í Almería á Spáni. Fyrst kenndi Sigrún aðferðafræði á Bifröst og átti sinn þátt í að móta þá kennslu. Í dag kennir hún menningarfræði í grunn- og meistaranámi, félagsfræði listgreina í meistaranámi, kynja- og fjölbreytileikafræði í grunnnámi og fjölbreytileika í stjórnun í meistaranámi. 

Dr. Sigrún hefur birt ritrýndar greinar og bókarkafla á innlendum og erlendum vettvangi, og haldið erindi á alþjóðlegum ráðstefnum, einkum í Evrópu og Asíu. Á meðal verkefna má helst nefna menningarpólitíska rannsókn á tónlistarlífi innan Háskólans í Oxford, ásamt rannsóknum á íslensku kórastarfi. Í framhaldi af því hefur hún metið styrkumsóknir um rannsóknastöðustyrki hjá Evrópusambandinu. Sigrún stundar rannsóknir á sviði menningarstjórnunar, kynjafræði- og fjölbreytileikastjórnunar og einnig áfallasögu og samfélagsleg áhrif sjávarháska á íslenskar sjávarbyggðir. Um þessar mundir er hún í þremur eftirfarandi rannsóknarhópum: A) Rannsókn á starfsumhverfi og reynsluheimi norrænna kvenna í stjórnunar- og leiðtogastöðum þar sem varpað er ljósi á það hvernig þær takast á við samfélagslegar og kynbundnar hindranir á leið sinni upp metorðastigann. B) Rannsókn á starfsumhverfi stjórnenda í menningargeiranum á Íslandi og hvernig íslensk menningarfyrirtæki takast á við margvíslegar áskoranir á sviði reksturs, aðgengis, inngildingar, fjölbreytileika og breyttrar menningarneyslu í kjölfar heimsfaraldurs. C) Áfallasaga íslenskra sjávarbyggða, þar sem skoðuð eru samfélagsleg langtímaáhrif áfalla af völdum sjávarháska.

Auk kennslu og rannsókna sinnir Sigrún málaralistinni undir vörumerkinu KindArt og er ein af föstum listamönnum í Gallerý Listaseli á Selfossi.

Sigrúnu eru færðar innilegar hamingjuóskir með framganginn.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta