14. desember 2021

Hlustað eftir framtíðinni

Hugur, tímarit um heimspeki, hefur birt athyglisverða grein eftir Njörð Sigurjónsson prófessor í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Í greininni, sem nefnist Framtíðartónlist, er spurt hvort hægt sé að nota tónlist til þess að skynja framtíðina, þetta sígilda umræðuefni sem við þreytumst seint á að spáum fyrir um, undirbúaokkur fyrir og leiða líkum að, svo að dæmi séu tekin.

Í forgrunni greinarinnar eru kenningar tengdar tónlistarheimspeki og framtíðarfræðum, sem byggja á því að eyrað sé „óvarðara“ eða frumstæðara skynfæri en sjónin og hleypir okkur sem slíkt nær því sem er að gerast í umhverfinu okkar. Hugmyndir af þessum toga hafi, sem dæmi, franski heimspekingurinn og hagfræðingurinn Jacques Attali nýtt við framtíðarrannsóknir. Með því að hlusta á það sem er ekki skilgreint sem tónlist í dag, er jafnvel litið á sem hávaða, megi greina breytingar sem séu að eiga sér stað í samfélaginu.

Sem dæmi í þessu samhengi nefnir Njörður t.d. rokktónlist 6. áratugarins og pönkið. Á sínum tíma hefði mátt greina þær samfélagsbreytingar sem voru að eiga sér stað í „hávaðanum“ sem þessar tónlistarstefnur þóttu standa fyrir. Sömu sögu megi svo segja af nútímatónlist ásamt öðru því sem gjarnan er skilgreint sem hávaði í samtímanum, s.s. dýrahljóð, náttúruhljóð og hljóð frá hafinu, svo að eitthvað sé nefnt.

Þessi nálgun byggir m.a. á þeirri forsendu að sögn Njarðar, að yfirleitt sé rætt um framtíðina á sjónrænum forsendum - við sjáum eitthvað fyrir okkur í framtíðinni, drögum upp framtíðarsýn eða setjum upp sviðsmyndir, eins og sagt er. Sjónin sé hins vegar mun „ónæmara“ skynfæri en heyrnin og hljóð eða hávaði úr samtímanum geti þess vegna gefið mun haldbetri vísbendingar um það sem er í raun að gerast.

Lestin, menningarþáttur á Rás 1, ræddi við Njörð um þessa athyglisverðu grein um framtíðartónlist og má mæla með viðtalinu, ekki hvað síst við áhugafólk um hljóðheimspeki.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta