Heimsþekktur fræðimaður heimsækir Háskólann á Bifröst í desember
Háskólinn Bifröst stendur fyrir tveimur spennandi viðburðum í byrjun desember þar sem áhersla er á nýjustu þekkingu og rannsóknir í markaðsfræði. Við fáum til okkar Dr. Tomas M. Hult, prófessor við Broad College of Business, Michigan State University, sem var nýlega valinn á lista Highly Cited Researchers 2025 hjá Clarivate Analytics, lista sem nær aðeins til þeirra fræðimanna sem eru í efsta 1% í heiminum hvað varðar tilvitnanir í rannsóknir þeirra.
![]() |
Fræðileg málstofa – 8. desember
Þann 8. desember stendur HB fyrir fræðilegri málstofu þar sem Tomas mun fjalla um birtingar í virtum vísindatímaritum og hvernig á að ná þeim (Publishing in Top Journals and How to Do It). Erindið er sérstaklega gagnlegt fyrir akademíska starfsmenn og nemendur sem stefna að birtingum í fremstu vísindatímaritum heims.
Með honum í för verður Prof. Vassiliki (Vicky) Bamiatzi, Professor of Strategy & International Business og Head of the Strategy & Marketing Department við University of Sussex Business School. Vicky mun halda erindi sem er sérstaklega ætlað doktorsnemum og nýjum fræðimönnum.
Að loknum erindum bjóða Tomas og Vicky í opið samtal við viðstadda. Hvetjum við alla til að mæta og nýta þetta einstaka tækifæri til að hitta tvö af fremstu fræðimönnum á sviði markaðsfræði og stefnumótunar.
Árangur í markaðsstarfi – 9. desember
Þann 9. desember taka Háskólinn á Bifröst og ÍMARK höndum saman og halda hádegisfund fyrir stjórnendur, nemendur og fagfólk í markaðs- og viðskiptalífinu. Á fundinum verður fjallað um hvernig gögn og rannsóknir eru lykill að árangri í markaðsstarfi.
Dr. Tomas M. Hult fjallar um hvernig fyrirtæki geta byggt markaðsstefnu sína á gögnum. Erindi hans byggir á umfangsmiklum rannsóknum sem birtar hafa verið meðal annars í Journal of Marketing, Journal of International Business Studies og Harvard Business Review.
Daði Guðjónsson, forstöðumaður markaðssamskiptasviðs Íslandsstofu, kynnir árangur í alþjóðlegum markaðsherferðum.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta
