Heimildarmyndir á tímum aktífisma og tæknibyltingar
Sigurjón Sighvatsson verður gestafyrirlesari í Samtali um skapandi greinar við Háskólann á Bifröst föstudaginn 17. mars nk.
Tilefnið er heimildamyndin Exxtinction Emergency sem Sigurjón leikstýrði með Scott Hardie, en þetta er hans fyrsta mynd sem leikstjóri eftir áratuga farsælan feril sem framleiðandi.
Myndin fjallar um Extinction Rebellion mótmælahreyfinguna sem hófst í Bretlandi árið 2018 og breiddist út um allan heim. Aktífistar lokuðu brúm og stöðvuðu umferð í stórborgum til að vekja athygli stjórnvalda og krefjast aðgerða í þágu loftslagsmála tafarlaust.
Erindi Sigurjóns mun fjalla um heimildamyndina sem sagnaform til að bregðast við og segja sögur sem skipta máli. Hann mun velta fyrir sér spurningunni um hvaða áhrif snjallasímatæknin muni hafa á kvikmyndagerð framtíðarinnar og segja frá verkefnum sem hann langar að hrinda í framkvæmd.
Sigurjón Sighvatsson hefur starfað sem kvikmyndaframleiðandi í meira en 50 ár, lengst af í Hollywood. Hann var einn af meðstofnendum Propaganda árið 1986, sem framleiddi fjöldann allan af myndböndum og auglýsingum þegar MTV kynslóðin var að verða til.
Sigurjón stofnaði einnig Palomar Pictures og framleiddi þar klassíksar myndir á borð við Wild at Heart, Arlington Road og Basquiat. Þá framleiddi hann einnig sjónvarpsþáttaraðir á borð við Twin Peaks, Fallen Angels og Beverly Hills 90210.
Sigurjón er frumkvöðull í eðli sínu og hikar ekki við að fara ótroðnar slóðir. Undanfarin misseri hefur hann unnið að ljósmyndalist og haldið sýningar samhliða því að þreyta frumraun sína sem heimildamyndaleikstjóri.
Nemendafélag Háskólans á Bifröst verður með sýningu á myndinni á Bifröst fimmtudaginn næstkomandi kl. 20:00. Fyrirlesturinn er síðan föstudaginn 17. mars kl. 13:30 – 14:15 í Hriflu og verður honum streymt í beinni útsendingu.
Þeir sem eru á staðnum gefst kostur á að ræða við Sigurjón eftir fyrirlesturinn.
Fyrirlesturinn verður sendur út í beinu streymi
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta