Heiður að vera valin til þátttöku í alþjóðlegu lagaverkefni 16. janúar 2019

Heiður að vera valin til þátttöku í alþjóðlegu lagaverkefni

Íris Hervör og  Kristófer Kristjánsson hafa verið valin úr hópi laganema við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Bifröst til að taka þátt í LawWithoutWalls, samstarfsverkefni margra virtustu lagadeilda í heimi.

Verkefninu er ætlað að tengja saman laganema, starfandi lögmenn, fagmenn og frumkvöðla víða um heim með þeim tilgangi að þátttakendur nýti þekkingu sína á lögfræði, í bland við reynslu af öðrum sviðum, til að skapa lausnir sem auka réttaröryggi almennings eða auðvelda lögfræðingum að leysa úr verkefnum.

Háskólinn á Bifröst hefur tekið þátt í verkefninu frá árinu 2013 en í því taka þátt m.a. nemendur frá lagadeildum Harvard, Stanford University og University of Miami. Þau Íris og Kristófer eru því á einu máli um að það sé mikill heiður að vera valinn sem fulltrúar síns skóla til þátttöku.

„Helga Kristín, lektor við félagsvísinda og lagadeild, leitaði til mín varðandi þátttöku og þá fór ég að skoða málið og leist vel á verkefnið. Ég sótti  því um og það var heilmikið ferli þar sem þurfti að svara ótal spurningum, taka áhugasviðspróf og búa til myndband,“ segir Íris.

„Ég þekki ágætlega Vigni Má, sem fór fyrir skólans hönd í fyrra, og fylgdist með honum þegar hann var að klára verkefnið síðastliðið vor. Hann sagði þetta verkefni bæði gefandi og krefjandi og hvatti mig til að sækja um sem ég og gerði. LawWithoutWalls er frábært tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og er um að ræða stutta og krefjandi lotu í hópavinnu rétt eins og við höfum reynslu af frá Háskólanum á Bifröst svo það á eftir að nýtast okkur vel,“ segir Kristófer.

Loka ráðstefnan í Miami í apríl

LawWithoutWalls hefst nú um komandi helgi með formlegu „kick off“ við IE háskólann á Spáni. Þar verður um 150 þátttakendum skipað í hópa eftir áhugasviði en útskrifaðir nemendur taka að sér leiðtogahlutverk í hópnum auk hópstjóra sem ýmist er kennari eða fulltrúi samstarf fyrirtækja verkefnisins. Framundan er því krefjandi og skemmtileg önn hjá þeim Írisi og Kristófer með rafrænum fundum og fyrirlestrum fram í apríl en þá fer fram loka ráðstefnan við Háskólann í Miami þar sem hóparnir kynna sín verkefni og keppt er um besta verkefni ársins.

Fjarnám og persónuleg samskipti heilluðu

Íris hyggur á útskrift nú í vor en hún hóf nám í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst eftir að hafa tekið sér hlé í nokkur ár frá námi. Hún er gift og á tvö börn og heillaði fjarnámið hana sérstaklega við Bifröst. Hún hafði heyrt vel af því látið frá kunningjum sínum auk þess sem hún segir lotukerfið henta sér mjög vel. Íris heillast hvað mest af evrópurétti og skattarétti og sér jafnvel fyrir sér að geta starfað á alþjóðlegum vettvangi í framtíðinni.

„Ég þrífst best þegar það er mjög mikið að gera og því hentar mér afar vel það fyrirkomulag að klára ákveðið námsefni á stuttri og krefjandi önn og byrja síðan á einhverju nýju. Fjarnámið hefur reynst mér vel og ég hef verið í ýmsum vinnuhópum sem hittast á Skype eða mæla sér mót í Reykjavík. Svo hefur verið gaman að taka viðskiptaáfanga með lögfræðinni t.a.m. reikningshald sem nýtist manni jafnt í starfi sem og heimilisbókhaldinu. Þá finnst mér sérstaklega heillandi hvað samskipti kennara og nemenda eru persónuleg á Bifröst. Nemendur hafa greiðan aðgang að kennurum og eins eru allir tilbúnir til að koma til móts við mann ef eitthvað kemur upp á,“ segir Íris.

Kristófer er á öðru ári í viðskiptalögfræði og starfar sem íþróttablaðamaður hjá Morgunblaðinu. Hann vildi skora á sjálfan sig og skráði sig því í Háskólagátt á Bifröst og viðskiptalögfræði í kjölfarið á því.  

„Ég hafði heyrt að á Bifröst væri mikil áhersla á hópavinnu og samskipti á milli nemenda í minni hópum. Einhvern veginn hef ég aldrei plummað mig í hóp, sem ég geri mér um leið grein fyrir að sé mjög mikilvægt, svo það fannst mér heillandi áskorun fyrir sjálfan mig. Nánast öll verkefni eru unnin í samvinnu við aðra sem hefur reynst krefjandi en lærdómsrík og nemendur hjálpa hvor öðrum mikið. Fjarnámið og sveigjanleiki þess hefur hentað mér mjög vel samhliða vinnu,“ segir Kristófer.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta