Hávaði búsáhaldabyltingarinnar 22. janúar 2016

Hávaði búsáhaldabyltingarinnar

Njörður Sigurjónsson, dósent á félagsvísindasviði Háskólans á Bifröst, var í viðtali í Víðsjá í Ríkisútvarpinu þann 20. janúar. Tilefnið var 7 ára afmæli búsáhaldabyltingarinnar svonefndrar og ný grein um hávaðaframleiðslu í mótmælum, sem Njörður birtir í nýjast hefti Ritsins, tímariti Hugvísindastofnunar. Í greininni fjallar Njörður um uppruna og eðli taktsins og  hávaðans og hvernig áslætti var kerfisbundið beitt til þess að trufla störf Alþingis í janúar 2009. Í eftirmála átakanna hafa komið upp ólíkar túlkanir á hávaðanum þar sem hann er ýmist nefndur valdeflandi þerapía eða hættuleg ofbeldishótun, oft eftir afstöðu þeirra sem um fjalla. Mögulegt er þó, að mati Njarðar, að staðsetja hávaðann í aldagamalli sögu óláta og hefðum um hávaða á götum úti, sem fær á sig nýtt form í mótmælaaðgerðum á síðustu áratugum tuttugustu aldarinnar og í upphafi þeirrar tuttugustu og fyrstu. Þannig er hægt að skoða íslenska pottasláttinn sem hluta alþjóðlegrar hreyfingar sem setti svip sinn á mótmæli í kjölfar fjármálahrunsins 2008. Ýmsar spurningar vakna þó þegar eyrun eru lögð við hávaðann um eðli mótmælahreyfinga í samtímanum, lýðræði og um möguleika á að stilla saman strengi þegar kröfurnar hljóma ósamrýmanlegar.   

Njörður Sigurjónsson er doktor í menningarstefnu og -stjórnun frá City University í Lundúnum og hefur kennt við menningarstjórnunarnámið á Bifröst frá árinu 2004. Rannsóknir hans tengjast menningarstefnu, stjórnun og stjórnsýslu með sérstakri áherslu á áhrif hugmyndafræði og fagurfræði í mótun stjórnunarhugsunar.

Fyrir neðan er tengill á viðtalið, sem hefst á 35. mínútu:

http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/vidsja/20160120

Fyrir neðan er tengill á frétt um nýjusta hefti Ritsins sem kom út nú í janúar:  

http://www.hi.is/frettir/ritid_um_gildi_og_merkingu_peninga

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta