Hátíðleg stund á útskrift Háskólans á Bifröst
15. júní 2025

Hátíðleg stund á útskrift Háskólans á Bifröst

Það var hátíðleg stund þegar útskriftarefni tóku við prófskírteinum sínum í Hjálmakletti í dag. Alls voru 182 háskólanemendur brautskráðir eða 74 úr grunnnámi, 78 úr meistaranámi og 30 nemendur úr háskólagátt Háskólans á Bifröst. Ef litið er til deildaskiptingar þá brautskráðust 49 úr félagsvísindadeild, 14 úr lagadeild og 88 úr viðskiptadeild. Þar af voru 130 konur og 52 karlar. Nálgast má nánari upplýsingar um brautskráninguna hér.

Logi Einarsson, ráðherra menningar, nýsköpunar og háskólamála var sérstakur gestur hátíðarinnar og flutti hann ávarp sitt í upphafi athafnarinnar þar sem hann óskaði útskriftarefnum innilega til hamingju með áfangann. Þá kom hann inn á það að Háskólinn á Bifröst hafi lengi verið þekktur fyrir sveigjanleika, samfélagslega ábyrgð og nálægð. Það sé ekki sjálfgefið að nám sé í senn aðgengilegt, fjölskylduvænt og í takti við þarfir fólks með ólíkan bakgrunn, en hjá Bifröst hafi sú sýn verið í forgrunni að menntun eigi að vera fyrir alla.

Að vanda voru verðlaun veitt fyrir framúrskarandi námsárangur. Hvatningarverðlaun hlutu Klara Ósk Elíasdóttir, Íris Hrund Sigurðardóttir, Jenný Rebekka Jónsdóttir og Daniela Katarzyna Zbikowska.

Útskriftarverðlaun fyrir grunnám fengu Sylvía Hlynsdóttir, Hugrún Diljá Þorgeirsdóttir, Rakel Hjelm Jónsdóttir og Matthildur Dögg Jónsdóttir. Útskriftarverðlaun fyrir meistaranám fengu Bjarni Thor Kristinsson, Lilja Dögg Gunnarsdóttir, Ólafía Jónsdóttir og Birna Dís Birgisdóttir. 

Nöfn þeirra hafa þar með bæst við Bifrastarlista háskólans.

Eins og síðustu ár, flutti Soffía Björg Óðinsdóttir söng- og tónlistarkona valin sönglög í upphafi dagskrár og milli atriða.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor ávarpaði útskriftarnemendur og aðra hátíðargesti.  Í ávarpi sínu talaði hún meðal annars um mikilvægi Bifrastar fyrir byggðir landsins og að Jónas á Hriflu hefði ekki aðeins stofnað Bifröst árið 1918 heldur stóð hann einnig fyrir stofnun héraðsskólanna á sínum tíma, sem urðu alls 10 talsins um allt land. Mikilvægi þeirra hafi verið ótvírætt því þeir gerðu fólki kleift að mennta sig í heimabyggð. „Það er einmitt nákvæmlega það sem við gerum við Háskólann á Bifröst og án þess að byggja hús“ sagði Margrét í ávarpi sínu. „Við getum nálgast nemendur okkar og veitt fyrirtaks háskólamenntun sama hvar fólk býr.“ Þá kom Margrét inn á mikilvægi Bifrastar fyrir byggðastefnu landsins. „Ef við ætlum að halda landinu okkar í byggð verður að vera til staðar háskóli landsbyggðanna, háskóli sem nær til allra, hvar sem er og hvenær sem er.“

Um leið og hún óskaði hópnum innilega til hamingju með áfangann, þá hvatti Margrét útskriftarnemendur til dáða og væri það nú í þeirra höndum að ávaxta námið sitt enn frekar til framtíðar.

Útskriftarhátíðin fór fram í Hjálmakletti í Borgarnesi þann 14. júní 2025, og var streymt beint frá viðburðinum á vef háskólans. Þar má einnig nálgast upptöku af útskriftarhátíðinni.

Myndir af útskriftarhópunum 

Útskriftarhópur Háskólagáttar
Grunnnám - lagadeild
Grunnnám - félagsvísindadeild
Grunnnám - viðskiptadeild
Meistaranám - lagadeild
Meistaranám - félagsvísindadeild
Meistaranám - viðskiptadeild