Hátíðarkvöldverður á Bifröst 15. mars 2022

Hátíðarkvöldverður á Bifröst

Háskólinn á Bifröst býður til hátíðarkvöldverðar grunnnema þann 18. mars nk. Heiðursgestur kvöldsins er hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Hátíðarkvöldverðurinn hefst með fordrykk í forsetasal kl. 19:00, en sest verður að borðum hálf tíma síðar og þriggja rétta matseðill reiddur fram. Þá mun forseti flytja hátíðargestum ávarp sem hann nefnir Bifröst, ættjarðarást og þjóðernishyggja. Veislustjóri kvöldsins er Sigríður Arnardóttir.

Hátíðarkvöldverðurinn er liður í nýrri framkvæmd háskólans á staðlotum eða vinnuhelgum eins og loturnar áður nefndust, en staðlota grunnnema stendur yfir dagana 17. til 19. mars nk. Verður heiðursgestur meistaranema kynntur síðar, þegar nær dregur staðlotu þeirra.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, mun í upphafi kvöldsins setja hátíðina. Að sögn rektors verður ánægjulegt að bjóða gesti velkomna, ekki hvað síst eftir það langa hlé í staðlotum sem sóttvarnir síðustu mánuða hafa óhjákvæmilega haft í för með sér. 

Tekið er við bóknum á netfanginu bifrost@bifrost.is. Nokkur sæti er eru enn laus og þau sem hafa áhuga eru því hvött til að láta vita af sér sem fyrst.

Á matseðli hátíðarkvöldverðarins er heitreyktur lax eða steikt grænmetis gyoza á salatbeði í forrétt, lambafillet eða grænkálsbuff með ofnbökuðu rótargrænmeti og salati í aðalrétt og ljúffeng eplakaka í eftirrétt.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta