Háskólinn á Bifröst tekur þátt í LawWithoutWalls 19. janúar 2016

Háskólinn á Bifröst tekur þátt í LawWithoutWalls

Háskólinn á Bifröst tekur nú þátt í hinu alþjóðlega samstarfsverkefni LawWithoutWalls þriðja árið í röð en setningarhátíð verkefnisins, svonefnt ‘Kick Off’, fór fram helgina 16-17. janúar í Madríd á Spáni. Setningarhátíðin í Madríd markar upphaf þátttakenda að LWOW verkefni sem unnið verður að næstu þrjá mánuði. Laganemar frá Bifröst ásamt Helgu Kristínu Auðunsdóttur lektor voru viðstaddir setningarhátíðina og voru þar í hópi rúmlega tvö hundruð laganema, fræðimanna, starfandi lögfræðinga og fjárfesta víðsvegar að úr heiminum. Markmið verkefnisins er að nemendur öðlist þekkingu og færni  í nýsköpun, hópavinnu, hagnýtri tækniþekkingu og skapandi og lausnamiðaðri hugsun.

Í ár taka tveir laganemar frá Bifröst þátt í verkefninu, þau Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Andri Björgvin Arnþórsson.  Þátttakendur eru valdir að loknu ströngu umsóknarferli og viðtali við fulltrúa frá University of Miami. Laganemar frá Háskólanum á Bifröst taka þátt í tveimur áhugaverðum og krefjandi verkefnum á næstu tveimur mánuðum. Andri Björgvin mun vinna að því ásamt hópi sínum að finna lausn á því hvernig tækninýjungar geta auðveldað  eldri borgurum að gæta réttar síns í samfélaginu. Hafdís Hrönn hefur það verkefni að svara því hvernig auka má hlut minnihluta hópa í áhrifastöðum og stefnumótun á sviði lögfræði. Nemendur munu kynna niðurstöður sínar í apríl á lokahátíð á vegum University of Miami.

Háskólinn á Bifröst óskar Hafdísi Hrönn og Andra Björgvini til hamingju með þetta tækifæri til að taka þátt í þessu alþjóðlega verkefni.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta