29. júní 2015

Háskólinn á Bifröst leiðir alþjóðlegt samstarfsverkefni um nýja kennsluhætti í laganámi

Lögfræðisvið Háskólans á Bifröst hefur hlotið styrk að fjárhæð € 167.193 ( um 25 milljónir íslenskra króna) í gegnum evrópsku Erasmus+ áætlunina, fyrir verkefnið „Development of a Blended Learning Approach to a Joint Degree in Business and Law“.  Verkefnið heitir á íslensku „Þróun blandaðra kennsluhátta fyrir sameiginlega gráðu í viðskiptalögfræði“.

Um er að ræða tveggja ára samstarfsverkefni milli lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst, lagadeildar Háskólans í Árósum og lagadeildar Dyflinarháskóla (University College Dublin). Markmið verkefnisins er að þróa blandaðar kennsluaðferðir í lögfræði, þar sem staðnámi og fjarnámi er beitt jöfnum höndum. Skólarnir stefna að því að bjóða uppá sameiginlega meistaragráðu á sviði viðskiptalögfræði og auka samstarf skólanna.

Samstarfið miðar að þróun aðferðafræði við kennslu lögfræði í blönduðu námi. Byggt verður á reynslu Háskólans á Bifröst af nýrri tegund lagakennslu, en lögfræðisvið skólans tók upp vendikennslu á nýliðnu skólaári og mun kenna lögfræði í blönduðu námi frá og með haustinu 2015. Starfsfólk þessara þriggja lagadeilda mun starfa náið saman á meðan verkefninu stendur.

Háskólinn á Bifröst hafði frumkvæði að umsókn rannsóknarstyrksins og mun sviðsstjóri lögfræðisviðs, Helga Kristín Auðunsdóttir, stýra verkefninu.

 „Það er mikill styrkur fyrir lítinn og framsækinn háskóla eins og Bifröst að starfa með Háskólanum í Árósum og UCD Dublin, enda um mjög sterkar og rótgrónar lagadeildir að ræða. Í samstarfinu felast einnig tækifæri bæði fyrir fyrir nemendur og kennara.  Við erum einnig mjög stolt af því að fá þetta tækifæri til að útfæra nánar þá aðferðafræði í lagakennslu sem við innleitt á lögfræðisviði Háskólans á Bifröst.“ Helga Kristín Auðunsdóttir. 

 

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta