Háskólinn á Bifröst hefur samstarf við Jinan háskólann í Kína 25. nóvember 2019

Háskólinn á Bifröst hefur samstarf við Jinan háskólann í Kína

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst fór fyrir sendinefnd sem dagana 7. og 8. nóvember heimsótti Jinan háskólann í Kína ásamt Dr. Francesco Macheda. Við háskólann eru yfir 37.000 nemendur en hann er einnig viðurkenndur sem ein mikilvægasta rannsóknarstofnun Shandong svæðisins sem er eitt auðugasta svæði Kína auk þess að gegna mikilvægu menningarhlutverki.

Á meðan heimsókninni stóð undirrituðu rektorar skólanna viljayfirlýsingu sem ætlað er að stuðla að aukinni samvinnu skólanna og auknum ferðum nemenda og kennara á sviði hagfræði, viðskiptalögfræði, leiðtogafræði, menningarstjórnun og umhverfisstjórnmála á milli stofnananna.   

Þess má geta að sendiherra Íslands í Kína, Gunnar S. Gunnarsson heimsótti háskólann í Jinan síðastliðið sumar og lagði þar með grunninn að samstarfi skólanna. Samskipti milli Íslands og Kína eiga sér í raun langa hefð: Ísland var fyrsta landið í Vestur-Evrópu sem viðurkenndi markaðshagkerfi Kína og einnig það fyrsta í Evrópu sem skrifaði undir tvíhliða fríverslunarsamning við Kína.

Frá heimsókn sendiherra Íslands í Kína til Jinan Háskóla fyrr á þessu ári.

Háskólinn á Bifröst gegnir því mikilvægu hlutverki við að efla gagnkvæman skilning milli landanna og samvinnu. Í raun þá segir í viljayfirlýsingunni, sem gildir næstu þrjú ár, að Háskólinn á Bifröst muni taka þátt í vinnu rannsóknarmiðstöðvar Jinan háskóla sem snýr sérstaklega að Íslandi, en hún var stofnuð árið 2014. Síðan þá hefur rannsóknarmiðstöðin reglulega birt þverfaglegar greiningar á málefnum Íslands, aðallega því sem snýr að stefnum í mennta- og umhverfismálum, viðskiptum við Kína, sögu og menningu sem og ferðaþjónustu og uppbyggingu samfélags og hagkerfis á Íslandi. Háskólarnir munu sín á milli hefja nokkur rannsóknarverkefni sem miða að því að dýpka gagnkvæman skilning milli Íslands og Kína auk þess sem þessi samvinna er einn liður í aukinni alþjóðavæðingu skólans, sem hefur verið eitt af megin markmiðum hans undanfarin ár.

Þá var Vilhjálmur skipaður heiðursprófessor við Jinan háksóla. Í kjölfarið kynnti hann það sem hann hefur verið að vinna að undanfarið, erindið bar heitið „Menntun er lífsstíll“, en þar er meginmarkmiðið að draga fram umbreytingu vinnumarkaðarins og áhrif þeirra á stefnu í menntamálum þróaðra landa.

Rektor Háskólans á Bifröst, Dr. Vilhjálmur Egilsson, skipaður heiðursprófessor við Háskólann í Jinan.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta