Háskólinn á Bifröst er rétti staðurinn fyrir þig 8. maí 2018

Háskólinn á Bifröst er rétti staðurinn fyrir þig

Eva Karen Þórðardóttir lauk MLM í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2017. Í dag rekur Eva eigið fyrirtæki sem heitir Effect en þar er boðið upp á ráðgjöf um gæðamál og stefnumótun fyrir fyrirtæki.

Starfsferill Evu er fjölbreyttur en í grunninn er hún menntaður grunnskólakennari. Eva starfaði við kennslu í Grunnskóla Borgarfjarðar og um nokkurra ára skeið rak hún einnig dansskóla Evu Karenar. Rekstur dansskólans var henni afar lærdómsrík reynsla en eftir það ævintýri ákvað hún að mennta sig frekar. Evu fannst meistaranámið í forystu og stjórnun heillandi kostur, auk þess sem það hentaði henni sérstaklega vel að vera í fjarnámi þar sem hún var með lítið barn.  

Í byrjun árs 2015 var Eva ráðin til að koma Grillhúsinu í Borgarnesi á laggirnar sem var bæði heilladrjúg og skemmtileg reynsla fyrir hana. Í kjölfarið er hún ráðin sem starfsmannastjóri keðjunnar sem rekur Grillhúsið og þrjá aðra veitingastaði. Eva er nýhætt störfum hjá fyrirtækinu og hefur nú snúið sér alfarið að eigin rekstri en Eva Karen stofnar fyrirtækið Effect um mitt ár 2017. Um er að ræða fyrirtæki þar sem veitt er ráðgjöf um starfsmannamál og stefnumótun fyrirtækja, hvernig megi efla þjónustustig þeirra, gera kannanir og margt fleira. Einnig hefur hún unnið ýmis verkefni fyrir breskt fyrirtæki sem ber heitið Fizz experience en helstu verkefni þess er umsjón vörukynninga fyrir hina ýmsu söluaðila.

Eva segir námið á Bifröst hafa verið mjög góður undirbúningur fyrir atvinnulífið, það hafi í raun verið kveikjan að hugmyndinni á bak við Effect. Samhliða náminu starfaði hún sem rekstrarstjóri Grillhússins í Borgarnesi.

„Þegar ég var í náminu tók ég námskeið í þjónustustjórnun en hluti þess námsskeiðs var að gera tilraunir og framkvæma rannsóknir á vinnustaðnum mínum. Í kjölfarið setti ég í gang þjónustustefnu og sá þá fljótt hvað þjálfun starfsmanna og stefnumiðað starf skilar góðum árangri í rekstri fyrirtækja“ segir Eva.

Eva segir námsfyrirkomulagið á Bifröst hafa hentað sér mjög vel og sé í raun sérsniðið að þeim sem vilja bæta við sig menntun og þekkingu samhliða vinnu. Nemandinn getur valið hversu margar einingar hann tekur hverju sinni og greiðir þá aðeins fyrir þann hluta en með þessu fyrirkomulagi er það raunhæfur kostur að ráða námshraða sínum alveg sjálfur. Þá segir Eva það einn helsta kost skólans að hann er frekar lítill sem gerir það að verkum að nemendur eru ekki bara kennitölur heldur þekkja bæði kennarar og deildarforsetar nemendur og hvetja þá áfram ef á þarf að halda.

„Drífðu bara í því! Þú munt ekki sjá eftir þeirri ákvörðun. Það er alltaf gott að bæta við sig menntun og þekkingu og síðast en ekki síst að efla tengslanetið. Ef þú ert í þessum hugleiðingum þá er Háskólinn á Bifröst rétti staðurinn fyrir þig“ segir Eva að lokum við þá sem eru að velta fyrir sér að fara í nám á Bifröst.

Umsóknarfrestur í meistaranám í forystu og stjórnun er til 15.maí. Allar nánari upplýsingar má nálgast hér.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta