Háskólinn á Bifröst deildi reynslu af fjarnámi á vettvangi EADTU
16. september 2025

Háskólinn á Bifröst deildi reynslu af fjarnámi á vettvangi EADTU

Í sumar sóttu Sólveig Hallsteinsdóttir, verkefnastjóri Uglu, Jóhanna Marín Óskarsdóttir, kennsluráðgjafi, og Dr. Einar Hreinsson, gæðastjóri, ráðstefnu á vegum EADTU, Staff Training Event – Support Services in Open & Distance Education, sem haldin var í Brig í Sviss. 

Ráðstefnan var hluti af samstarfi Evrópskra samtaka fjarkennslu-háskóla (EADTU), sem eru leiðandi stofnananet háskóla á sviði net-, opins og fjarnáms í Evrópu. EADTU, stofnað árið 1987, hefur í gegnum árin byggt upp mikla reynslu og þekkingu á þróun kennsluhátta, nýsköpun í háskólamenntun og alþjóðlegu samstarfi. 

Samtökin telja nú 28 meðlimi: 11 háskóla sem bjóða upp á opna kennslu, net- og fjarnám, 14 lands­háskólasamtök og 3 tengda aðila. Samanlagt eru þeir fulltrúar yfir 150 evrópskum háskólum og um 3 milljónum nemenda. 

Auk fulltrúa frá Íslandi sóttu einnig viðburðinn fulltrúar frá háskólum í Hollandi, Kanada, Ítalíu, Finnlandi, Sviss, Grikklandi og Bretlandi. 

Fyrri daginn voru flutt 7 erindi um hlutverk gervigreindar og virkni nemenda í fjarnámi. 

Háskólinn á Bifröst flutti þar erindið Designing for Engagement: Retaining Students in Digital Education. Í fyrirlestrinum var stiklað á því hvernig skólanum hefur tekist að halda persónulegum tengslum og þjónustu við nemendur þrátt fyrir að vera ört stækkandi fjarnámsskóli. Þá var einnig farið yfir þau kerfi sem við nýtum í eftirfylgni á virkni nemenda og hversu lítið brottfall í raun er þrátt fyrir að vera fjarnámsskóli. Erindið vakti gríðarlegan áhuga og raskaðist dagskráin talsvert sökum spurningaflóðs og umræðna þátt-takenda. 

Seinni daginn voru flutt þrjú erindi um alþjóðavæðingu og netöryggi, og í kjölfarið var hópnum skipt í vinnustofur þar sem rætt var annars vegar um starfsmannamál í fjarnámsskólum og hins vegar stefnur og lausnir í fjarprófum og námsmati. 

Dagskráin var jafnframt nýtt til að efla tengslanet þátttakenda með gönguferðum, vín- og osta-smökkun, fróðlegri kynningu á sögu Brig og notalegu spjalli. „Ferðin var bæði lærdómsrík og vakti Háskólinn á Bifröst athygli fyrir persónulega nálgun sína við nemendur og einnig var stofnað til nýrra og góðra tengsla.” segir Jóhanna að lokum.