Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor og Þorgerður Sól Ívarsdóttir sem lauk BS-námi úr viðskiptadeild.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor og Þorgerður Sól Ívarsdóttir sem lauk BS-námi úr viðskiptadeild.

20. febrúar 2021

Háskólahátíð og brautskráning 76 nemenda

Laugardaginn 20. febrúar brautskráðust 76 nemendur frá Háskólanum á Bifröst. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, Jón Snorri Snorrason, forseti viðskiptadeildar og Njörður Sigurjónsson forseti félagsvísinda- og lagadeildar afhentu nemendum skírteini sín við hátíðlega athöfn í Hriflu, hátíðarsal skólans. Af sóttvarnarástæðum var brautskráningunni tvískipt og voru 32 nemendur útskrifaðir úr grunnnámi og háskólagátt fyrir hádegi; 13 úr viðskiptadeild, 18 úr félagsvísinda- og lagadeild og einn nemandi úr háskólagátt. Eftir hádegi voru 44 nemendur útskrifaðir úr meistaranámi; 35 úr viðskiptadeild og 9 úr félagsvísinda- og lagadeild. Aðeins voru nemendur í salnum en nánustu aðstandendur gátu fylgst með streymi frá athöfninni í kennslustofum.

Þetta er fyrsta brautskráning Margrétar Jónsdóttur Njarðvík í embætti rektors. Í hátíðarræðu sinni lagði hún meðal annars út frá gildum skólans sem eru frumkvæði, ábyrgð og samvinna. Hún hvatti hina útskrifuðu nemendur til að halda áfram að sýna frumkvæði eins og þau hefðu gert með því að hefja nám við skólann og axla ábyrgð eins og þau hefðu gert með því að sinna námi sínu vel og ljúka því. Þá benti hún á að góð samvinna í hóp myndaði slíkan kraft að að tveir plús tveir yrðu fimm. Margrét bað hina brautskráðu nema að taka með sér nokkur heilræði út í lífið; að láta muna um sig, halda áfram að vera sjúklega forvitin og sýna hugrekki, að huga að nýsköpun, að hlúa að vörumerkinu Bifröst, nýta menntun sína vel og rækta hamingjuna.

Útskriftarverðlaun í grunnnámi hlaut, Helga Sigurlína Halldórsdóttir sem stundaði nám í viðskiptadeild og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir úr félagsvísinda- og lagadeild. Þórhildur er jafnframt yngsti nemandi sem lokið hefur grunnnámi frá skólanum, fædd árið 2000.  Í meistaranámi hlutu, Erla Björnsdóttir úr viðskiptadeild og Klara Rún Ragnarsdóttir úr félagsvísinda- og lagadeild útskriftarverðlaun. Að auki fengu tveir nemendur felld niður skólagjöld á vormisseri 2021 vegna framúrskarandi námsárangurs, þær Auður Ösp Ólafsdóttir í viðskiptadeild og Silja Stefánsdóttir í félagsvísinda- og lagadeild.  

Þorgerður Sól Ívarsdóttir flutti ávarp fyrir hönd grunnnema viðskiptadeildar og Hafdís Jóhannsdóttir fyrir hönd grunnnema félagsvísinda- og lagadeildar. Logi Jóhannesson flutti ávarp fyrir hönd meistaranema.

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir kennslustjóri stýrði athöfnunum og Eva Margrét Jónudóttir og Snorri Bergsson önnuðust tónlistarflutning við athöfnina.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta