Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, ávarpar hina brautskráðu á háskólahátíðinni í dag.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, ávarpar hina brautskráðu á háskólahátíðinni í dag.

19. febrúar 2022

Háskólahátíð á Bifröst

Alls voru 110 nemendur brautskráðir frá Háskólanum á Bifröst í dag, 48 nemendur með bakkalárgráðu og 62 nemendur með meistaragráðu. Þá luku tveir háskólagátt á Bifröst og voru því samtals 112 nemendur brautskráðir.

Brautskráningin fór fram á háskólahátíð í Hriflu, hátíðarsal Háskólans á Bifröst, þeirri fyrstu sem farið hefur fram með hefðbundnu sniði um þó nokkurt skeið sökum heimsfaraldursins. Að vanda afhentu deildarforsetar nemendum skírteini sín, Stefan Wendt, að hálfu viðskiptadeildar, Elín H. Jónsdóttir, að hálfu lagadeildar og Njörður Sigurjónsson, að hálfu félagsvísindadeildar.

Í lok athafnarinnar ávarpaði rektor Margrét Jónsdóttir Njarðvík hina brautskráðu. Hvatti rektor hinn nýja Bifrastar-árgang m.a. til þess, að láta muna um sig og verða leiðtogar í eigin lífi. Einnig hvatti hún þau til að nýta menntun sína vel. Nýja prófgráðan geti bæði vaxið og rykfallið í höndum þeirra.

Þá kom í máli rektors einnig fram að fjöldi doktorsmenntaðra starfsmanna við Háskólann á Bifröst hafi tvöfaldast á undanförnum tveimur árum. Samfara því hafi rrannsóknavirkni aukist svo um muni. Nemendafjöldi hafi jafnframt aldrei verið meiri við háskólann.

Á yfirstandandi haustönn luku, eins og áður segir, 110 háskólanámi. Af 48 nemum í grunnnámi brautskráðust 10 úr félagsvísindadeild, 6 úr lagadeild og 32 úr viðskiptadeild, en af þeim 62 sem voru í meistaranámi, brautskráðust 5 úr félagsvísindadeild, 4 úr lagadeild og 53 úr viðskiptadeild.

Sem kunnugt er hljóta efstu nemendur í annars vegar grunnnámi og hins vegar meistaranámi sín hvor útskriftarverðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur. Að þessu sinni hrepptu hossið Heiðrún Jónsdóttir og Axel Ingi Árnason í félagsvísindadeild og Valdís Ósk Óladóttir og Heiðdís Rósa Sigurjónsdóttir í lagadeild.

Á hinn bóginn hlutu fjórri nemendur úr viðskiptadeild útskriftarverðlaun, einn úr grunnnámi og þrír úr meistaranámi eða Alexandra Mjöll Jóhönnudóttir, Kristinn Vignisson, Jónína Rut Matthíasdóttir og Katrín Valdís Hjartardóttir, en þannig háttar til, að Kristinn, Jónína Rut og Katrín Valdis luku öll meistaranámi með hnífjafnar einkunnir.

Hæstu meðaleinkunn á haustönn hlaut svo Kristín Jakobsdóttir, viðskiptadeild, með 9,1 í meðaleinkunn. Í lagadeild var Pétur Birgisson efstur, með 8,6 í meðaleinkunn og í félagsvísindadeild var það Einar Freyr Elínarson sem var efstur með 8,9.

Þess má svo geta að ávarp fyrir hönd útskrifaðra grunnnema flutti Vala Dögg Petrudóttir, félagsvísindadeild, Elmar Guðlaugsson, fyrir lagadeild og Alma Katrín Einarsdóttir, fyrir viðskiptadeild. Ávarp fyrir hönd útskrifaðra meistaranema flutti hins vegar Marlena Rzepnicka.

Sólveig Hallsteinsdóttir, verkefnastjóri nemendaskrár, leiddi útskriftarathöfnina. Karlakórinn Söngbræður söng fyrir gesti við undirleik Birgis Þórisonar. Stjórnandi er Viðar Guðmundsson.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta