Grein byggð á niðurstöðum rannsóknar meistaranema við Háskólann á Bifröst birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.
Niðurstöður rannsóknarinnar sem gerð var um starfsumhverfi opinberra stjórnenda á Íslandi sýna að verkefni og viðhorf íslenskra opinberra stjórnenda ríma við norræn gildi þar sem opin samskipti, gagnrýni í hugsun og umhyggja eru helstu einkennin. Samkvæmt niðurstöðum einkennist opinber stjórnun hérlendis af trausti, skýrum verkferlum, stuttum boðleiðum og litlu skrifræði. Í rannsókninni var einnig gerður samanburður við starfsumhverfi danskra stjórnenda og skoðað hvernig viðhorf og verkefni opinberra stjórnenda í löndunum tveimur falla að gildum sem einkenna norræna stjórnun.
Í viðhorfskönnun sem lögð var fyrir opinbera stjórnendur á Íslandi kemur fram að stjórnendur eru almennt ánægðir með starfsumhverfið, en meirihluti þeirra telur mögulegt að auka árangur í starfseminni. Samstarf og tengslanet var gott á vinnustaðnum og sanngjarnar kröfur voru gerðar til stjórnenda.
Athygli verkur að stjórnendur virðast eiga erfitt með að átta sig á hvaða hlutverki þeir gegna þegar kemur að því að takast á við hindranir í starfinu. Út frá niðurstöðum um helstu hindranir má álykta að leggja þurfi áherslu á árangursrík samskipti við lýðræðislega kjörna fulltrúa á hinum pólitíska vettvangi. Ýmis tækifæri eru til að skapa nýjar lausnir og auka svigrúm í opinberri stjórnun með því að hrinda hindrunum úr vegi, leggja áherslu á færni starfsfólks og miðla upplýsingum með markvissum hætti.
Bæði danskir og íslenskir stjórnendur telja að í framtíðinni verði gerðar meiri kröfur til gæða og að þeir þurfi að efla færni sína í markvissara gæðastarfi. Í löndunum tveimur eru stjórnendur almennt ánægðir með starfsumhverfið en fram kom að danskir stjórnendur töldu skrifræði vera of mikið og að einfalda mætti verkferla og íslenskir stjórnendur virtust almennt hafa minni áhrif á starfsumhverfið en danskir starfsfélagar þeirra.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta