8. desember 2016

Góður grunnur fyrir aðila í stjórnunarstörfum

Ólöf Guðmundsdóttir er nýráðinn atvinnuráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV). Ólöf lauk nú í vor meistaranámi í Forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst en áður hafði hún útskrifast sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Ólöf var valin úr hópi 28 umsækjanda en hún hefur langa reynslu af starfi við fjármálastjórnun hjá fyrirtækjum, hefur starfrækt bókhaldsþjónustu, auk þess sem hún hefur starfað hjá endurskoðunar-fyrirtækinu Grant Thornton.

„Nám í forystu og stjórnun er góður grunnur fyrir aðila í stjórnunarstörfum. Starf mitt sem atvinnuráðgjafi hjá Samtökum sveitafélaga á Vesturlandi felur í sér fjölbreytta þjónustu fyrir sveitafélög, fyrirtæki og einstaklinga.  Starf mitt er margþætt og tekur á mörgum þáttum samfélagsins, til dæmis að aðstoða aðila við umsóknir úr sjóðum þá sérstaklega til nýsköpunar, endurskipulagningu á rekstri, endurfjármögnun og gerð viðskipta- og rekstraráætlana,“ segir Ólöf.

Með meistaranámi vildi Ólöf geta nýtt reynslu sína úr stjórnunarstörfum fyrirtækja enn betur með því að auka við þekkingu sína í stjórnun og stefnumótun.

„Ég er með góðan grunn úr viðskiptafræði og eftir að hafa skoðað málið fannst  mér meistaranám í Forystu og stjórnun vera áhugaverðast fyrir mig. Fjarnám hentaði mér mjög vel með mætingu á vinnuhelgar og það hefur nýst mér mjög vel að velja mér námsgreinar tengdar fjármálastarfssemi. Nám við Háskólann á Bifröst eykur þekkingu á viðfangsefnum og opnar á ný tækifæri í leik og starfi,“ segir Ólöf.

Háskólinn á Bifröst óskar Ólöfu til hamingju með nýtt starf og velfarnaðar í starfið.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta